„Þetta er náttúrulega stór skellur en miðað við hvernig einstaka liðum í verkáætluninni hefur verið að seinka, þá er þetta ekki eitthvað sem manni bregður við,“ segir Sindri Freyr Ásgeirsson, formaður Samtaka um bíllausan lífstíl, um seinkun verkloka fyrstu lotu borgarlínunnar.
Í uppfærðri áætlun sem kynnt var á þriðjudag kemur fram að áætlað sé að leggurinn frá Hamraborg að miðbæ verði tilbúinn árið 2026 og leggurinn frá Ártúnshöfða að miðbænum verði tilbúinn ári síðar. Upphaflega var vonast til þess að framkvæmdalok fyrstu lotunnar yrðu árið 2025.
Sindri bendir á að mjög ítarleg tímalína hafi verið í frumdrögum verkáætlunar borgarlínunnar, sem hefur ekki staðist hingað til.
„Þannig að auðvitað er þetta leiðinlegt,“ bætir hann við.
Hann segist þó bíða spenntur eftir borgarlínunni og vonast til þess að hægt sé að spýta aðeins í lófana.
„Eins og það er hægt að tefja borgarlínuna þá hlýtur að vera hægt að flýta henni með auknu fjármagni,“ segir Sindri.
Þá segir hann ýmislegt vera í boði fyrir þá sem vilja lifa bíllausum lífstíl þar til borgarlínan kemur.
„Strætó, hjóla, labba og svo eru nú fínustu deililausnir, bæði hlaupahjólin og deilibílarnir,“ segir Sindri og bætir við:
„Þú átt ekki að hugsa þetta sem af eða á, þú átt bara að reyna að minnka bílnotkunina þína og lifa einhvern veginn almennt umhverfisvænum lífstíl.“