„Skammarlegt og vandræðalegt“ fyrir Framsókn

Helga Kristín Gunnarsdóttir og Þorvaldur Daníelsson.
Helga Kristín Gunnarsdóttir og Þorvaldur Daníelsson. Samsett mynd

„Þetta er ótrúlega skammarlegt og vandræðalegt fyrir Framsókn að koma svona fram og svara engu og reyna að fela sig,“ segir Helga Kristín Gunnarsdóttir, talsmaður Náttúruvina Reykjavíkur og Vina Vatnsendahvarfs, í samtali við mbl.is.

Eins og greint var frá í gær fullyrti Helga, í Facebook-hópnum Vinum Vatnsendahvarfs, að Þorvaldur Daníelsson, varaborgarfulltrúi Framsóknarflokksins, sem var í 5. sæti á lista í Reykjavík í kosningunum í vor, hefði svikið kosningaloforð.

Hann hafi sagt að ef flokkurinn kæmist til valda myndi hann láta gera nýtt umhverfismat vegna Arnarnesvegar. Flokkurinn greiddi atkvæði með deiliskipulagi með núverandi umhverfismati, sem er frá árinu 2003.

Gert er ráð fyrir miklum umferðarmannvirkjum sem einnig teygja sig …
Gert er ráð fyrir miklum umferðarmannvirkjum sem einnig teygja sig inn í Elliðaárdal, eins og sjá má af teikningunni.

Loforð Framsóknar hafi verið skýr

Þorvaldur hefur ekki svarað mbl.is í dag, en hann sagði í athugasemd í Facebook-hópnum að hann hefði talað fyrir sig sjálfan á umræddum fundi en ekki fyrir flokkinn. Hann segir að mörg mál hafi verið afgreidd í borgarstjórn á þeim tíma sem Framsókn var fjarverandi og honum hafi ekki verið kunnugt um hversu langt þau væru komin. 

„Við í Framsókn töluðum skýrt um að við vildum að unnið yrði að framgangi Samgöngusáttmálans og þar með lagningu Arnarnesvegar. Ég mun sjá eftir því svæði sem fer undir veginn þótt ég viti að hann verði mikil samgöngubót. Eðli máls samkvæmt eru skiptar skoðanir innan Framsóknar um þetta mál eins og innan flestra flokka,“ skrifar Þorvaldur á Facebook.

Þá segir hann að Framsókn hafi ekki haft það á stefnuskránni að krefjast nýs umhverfismats vegna Arnarnesvegar. Stefnan liggi fyrir á netinu.

„Ég vona að við getum haldið áfram góðu samtali um náttúruverndarmálin.“

Horft af Vatnsendahvarfi, þar sem leggja á hraðbraut, yfir höfuðborgina.
Horft af Vatnsendahvarfi, þar sem leggja á hraðbraut, yfir höfuðborgina. Ljósmynd/Helga Kristín Gunnarsdóttir

Einar vísar á Þorvald

Helga segir samtökin Nátt­úru­vini Reykja­vík­ur og Vini Vatns­enda­hvarfs ít­rekað hafa reynt að ná tali af Ein­ari Þor­steins­syni, oddvita Framsóknar í Reykjavík, en hann hafi hunsað alla þeirra pósta.

Helga bæt­ir því við að hún hafi ný­lega náð tali af Þor­valdi og að hann hafi sagst ekki hafa áttað sig á því að málið væri svona langt komið, en hann myndi skoða þetta bet­ur og hafa síðan sam­band. Sem hann hafi ekki gert.

Blaðamaður náði tali af Einari, sem benti á Þorvald, en vildi ekki tjá sig að öðru leyti um málið.

Ekki verjandi að byggja á 20 ára umhverfismati

„Við höldum fund fyrir kosningar í raun til að fá afstöðu flokkanna gagnvart ýmsum málum, svo við getum látið okkar hópa vita ef það myndi hafa áhrif á þeirra atkvæði. Þorvaldur Daníelsson kemur fyrir hönd Framsóknar og við spyrjum mjög skýrt:

„Hvaða flokkar, ekki hvaða persónur, styðja að nýtt umhverfismat verði gert fyrir þriðja kafla Arnarnesvegar?“ Þá rétti Þorvaldur upp hönd, ásamt Vinstri grænum og Flokki fólksins,“ segir Helga.

„Eftir þennan fund les ég yfir stefnumál Framsóknarflokksins og sé að þeir styðji samgöngusáttmála eins og hann leggur sig, svo ég hringi í skrifstofu Framsóknar og útskýri fyrir þeim að þetta samræmist ekki, að vilja nýtt umhverfismat og að styðja samgöngusáttmála í núverandi mynd. Þorvaldur hringir í mig og sannfærir mig um að samgöngusáttmálinn sé mikilvægur en það sé hvorki umhverfislega né siðferðislega verjandi að byggja svona framkvæmd á 20 ára umhverfismati.

Ég tók það gilt og lét minn hóp vita á Facebook að Framsókn væri einn af flokkunum sem myndi styðja nýtt umhverfismat,“ segir Helga.

Ekkert annað en svik

„Þú getur ekki mætt á fund fyrir þinn flokk, þóst vera að tala fyrir flokkinn, síðan gengið til baka og sagt að þetta hafi bara verið þín skoðun af því bara. Við sjáum þetta þannig að þetta sé ekkert annað en svik á kosningaloforðum,“ bætir hún við.

„Það er ótrúlega skrítið að það sé hægt að byggja þarna á tuttugu ára gömlu umhverfismati. Hvar er siðferðið í því? Miðað við allar grænar áherslur borgarinnar, þá er þessi ákvörðun algjörlega út úr kú.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert