90% arðgreiðsla Faxaflóahafna kom á óvart

Frá Reykjavíkurhöfn.
Frá Reykjavíkurhöfn. mbl.is/Árni Sæberg

Samþykkt hefur verið tillaga þess efnis að arðgreiðsla til eigenda Faxaflóahafna fyrir rekstrarárið 2021 verði 766 milljónir króna eða 90% af hagnaði.

Marta Guðjónsdóttur, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segist ekki hafa átt von á því að farið yrði fram á svona háar arðgreiðslur. Hún segir hlutfallið hafa komið fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í stjórn Faxaflóahafnar verulega á óvart. Hún og Örn Þórðarson greiddu atkvæði gegn tillögunni en aðrir stjórnarmenn samþykktu hana.

Kemur fram í fundargerð að rekstur Faxaflóahafna hafi verið umfram væntingar. Hagnaðurinn var ríflega 851 milljón króna en gert hafði verið ráð fyrir 45 milljóna króna hagnaði.

Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Ljósmynd/Aðsend

„Mjög sjaldgæft“ hlutfall

„Það er mjög sjaldgæft að slíkt hlutfall af hagnaði fyrirtækja sé greitt sem arður til eigenda. Við bentum á að það ætti frekar að stilla þessum arðgreiðslum í hóf og nýta hagnaðinn frekar til fyrirhugaðra innviðauppbygginga,“ segir Marta sem telur þetta háa hlutfall ekki skynsamlegt.

Hún bætir við að hagnaðinn hefði einnig máta nýta almenningi til góða, t.d. með því að stilla vörugjöldum í hóf og því hafi borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gagnrýnt fyrirkomulagið.

„Við hefðum talið réttara að þetta nýttist þar og höfum haft þá skoðun hingað til að við eigum ekki að vera að laga stöðu borgarsjóðs með því að greiða svona háa fjárhæð.“

Marta bendir á að ætlunin sé að í haust muni ný stjórn móta arðgreiðslustefnu fyrir fyrirtækið.

„Ég held að það verði til bóta þannig að það liggi fyrir hver stefnan sé í þeim efnum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert