Hjólhýsabyggðin á Laugarvatni verður lögð af. Þetta segir í fundargerð sveitarstjórnar Bláskógabyggðar en hún tók ákvörðun um framtíð byggðarinnar í gær.
Félag hjólhýsaeigendanna hafði sent sveitarfélaginu tilboð þar sem það bauðst til að greiða fyrir nauðsynlegar framkvæmdir á borð við vatnslagnir „með það að leiðarljósi að hjólhýsabyggðinni verði tryggð örugg tilvist til framtíðar“, segir í fundargerðinni.
Þar segir jafnframt að tillagan feli í sér að Bláskógabyggð geri áframhaldandi lóðarleigusamning við Fýlinn slf., sem hefur séð um rekstur svæðisins, án útboðs.
Í fundargerðinni kemur fram að sveitarstjórn Bláskógabyggðar hafi ekki talið mögulegt að taka við tilboði Samhjóls, sem er félag hjólhýsaeigenda á Laugarvatni.
„Sveitarstjórn Bláskógabyggðar er bundin almennum grundvallarreglum stjórnsýsluréttar sem gilda um þau tilvik þegar opinber aðili úthlutar takmörkuðum gæðum sem leiða til þess að sveitarfélaginu er nauðsynlegt að auglýsa með opinberum hætti eftir rekstraraðila svæðisins eða leigutaka landsins.
Sveitarstjórn telur ekki mögulegt að fara þá leið að gera áframhaldandi samning við Fýlinn slf. sem hefur staðið að rekstri svæðisins undanfarin ár enda leiða engin rök til forgangsréttar þess aðila umfram aðra,“ segir í fundargerðinni.
Hjólhýsabyggðin hefur verið á Laugavatni í 50 ár og hafa hingað til haft leigusamning við sveitarfélagið. Hjólhýsin eru um 140 talsins en voru áður tæplega 200.