„Neikvæð áhrif“ á heilsufar íbúa á svæðinu

Fyrirhugað er að fjögurra akreina vegurinn fari yfir hæðina og …
Fyrirhugað er að fjögurra akreina vegurinn fari yfir hæðina og teygi sig einnig niður í Elliðaárdal. Kort/Vegagerðin

Í pósti frá Landvernd til Skipulagsstofnunnar árið 2020 kemur fram að umhverfisáhrif Arnarnesvegar muni verða umtalsverð, gæði aðliggjandi byggðar muni verða skert og að ætla megi að það hafi neikvæð áhrif á velsæld og heilsufar íbúa á svæðinu.

„Umhverfisáhrif vegarins virðast vera umtalsverð. Hann mun skera í tvennt náttúru­legt úti­vistar- og út­sýnis­svæði, sem mikið er nýtt af í­búum borgar og ná­grennis og rýra gæði áformaðs Vetrargerðs,“ segir í pósti Landverndar.

„Gæði aðliggjandi byggðar verða því skert og má ætla að það hafi neikvæð áhrif á velsæld og heilsufar íbúa á svæðinu.“

Horft af Vatnsendahvarfi, þar sem leggja á hraðbraut, yfir höfuðborgina.
Horft af Vatnsendahvarfi, þar sem leggja á hraðbraut, yfir höfuðborgina. Ljósmynd/Helga Kristín Gunnarsdóttir

Nauðsynlegt að endurmeta framkvæmdina

Í póstinum segir einnig að viðhorf til umhverfismála og grænna svæða hafi breyst verulega frá árinu 2003, þegar umhverfismat fyrir veginn var gert. Meiri áhersla sé lögð á lífsgæði sem fylgja aðgangi að náttúru og grænum svæðum.

Upphaflega hafi þessi hluti Arnar­nes­vegar verið hugsaður sem ofan­byggðar­vegur þegar hann hafi verið settur á skipu­lag fyrir 40 árum, en sé í núverandi mynd fjórar akreinar.

„Telur Landvernd nauðsynlegt að endurmeta framkvæmdina, að umhverfismatið frá 2003 verði fellt úr gildi og almenningi verði gefinn kostur á að leggja fram athugasemdir og ábendingar.“ 

Pósturinn er dagsettur 9. nóvember 2020 og undirritaður af framkvæmdastjóra Landverndar, Auði Önnu Magnúsdóttur. Hann var sendur til Skipulagsstofnunnar, Reykjavíkurborgar og Kópavogsbæjar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert