Æ fleiri hafa undanfarnar vikur óskað eftir að komast í sýnatökur á Akureyri vegna kórónuveirunnar. Sýnatökustaður hefur því verið færður til og er nú á planinu við Slökkvistöð Akureyrar við Árstíg 2. Þar hefur verið komið fyrir gámi með bílalúgu þar sem sýnatökur fara framvegis fram.
„Óskum um að komast í sýnatökur vegna covid hefur fjölgað undanfarið og því þurfti að finna heppilegri sýnatökustað,“ segir Þorgerður Kristinsdóttir, hjúkrunarfræðingur og staðgengill yfirhjúkrunarfræðings HSN á Akureyri. Hún segir að í byrjun júní hafi að jafnaði verið tekin um 20 sýni daglega, en nú séu þau í kringum 60 til 70. Það skýrist einkum af aukningu smita og fjölgun ferðamanna í bænum.
Þorgerður segir vel ganga að bjóða upp á fjórða skammt af bóluefni vegna kórónuveirunnar, en einkum þiggja þá sprautu fólk 80 ára og eldra og þeir sem eru með undirliggjandi sjúkdóma.
Þessar bólusetningar eru í boði á öllum heilsugæslustöðvum HSN á Noðurlandi. Tveir bólusetningardagar eru í þessum mánuði, 13. júlí og 27 júlí. Þorgerður segir eftirspurn ráða hvort bætt verði við fleiri dögum.