Landsleikurinn í kvöld kostar Körfuknattleikssamband Íslands tólf til fjórtán milljónir króna.
Þetta staðfestir Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ. Hann er búinn að vera í Ólafssal í dag að undirbúa leikvanginn fyrir kvöldið og ganga frá lausum endum.
Uppselt er á leikinn sem hefst klukkan átta. Tekjur af miðasölu telja tvær milljónir króna. Þá er aðeins heimilt að auglýsa styrktaraðila á landsleikjum svo ekki fást neinar auglýsingatekjur umfram þá samstarfssamninga sem í gildi eru.
Leikurinn fer fram í Ólafssal Haukaheimilisins í Hafnarfirði. „Ef við hefðum verið í Laugardalshöllinni hefðum við kannski getað selt miða fyrir þrjár milljónir króna í viðbót, en það er bara pláss fyrir 700 áhorfendur í Ólafssal.“
Alþjóðakörfuknattleikssambandið, FIBA, sendi fjóra starfsmenn til landsins í aðdraganda leiksins til að hafa eftirlit með undirbúningi og umgjörð.
Hannes segir mikið álag vera á sambandinu vegna þeirra miklu krafna sem koma frá alþjóðaumhverfinu, og þætti rétt að ríkissjóður kæmi meira til móts við afreksíþróttastefnu sérsambandanna.
„Við erum með fimm starfsmenn á skrifstofunni allt í allt. Minnsta körfuknattleikssambandið á Norðurlöndunum, á eftir okkur, er Noregur þar sem starfsfólk á skrifstofu telur þó sautján einstaklinga. Í Finnlandi eru starfsmenn á skrifstofu fimmtíu.“
Hannes segir að á Íslandi þurfi að eiga sér stað hugarfarsbreyting gagnvart íþróttahreyfingunni. „Við þurfum að setjast niður og ræða þetta af alvöru. við þurfum verulega hækkun á rekstrarfé í almennt starf sem og afreksstarfið. Það eru orðnar það miklar kröfur í tengslum við umgjörðina, skýrslugjöf og fleira.“