Búast má við allt að 20 stigum þar sem best lætur sunnanlands í dag, en nokkuð svalara veður verður fyrir norðan, samkvæmt veðurfræðingi hjá Veðurstofu Íslands.
Spáð er fremur rólegu veðri framan af degi en síðan bætir í vind, einkum fyrir austan. Fremur rakt loft liggur nú yfir landinu og því víða þungbúið. Kemur þó fram að skýjahulan lyfti sér yfir daginn.
„Mun bjartara sunnantil á landinu og einnig á hálendinu, en búast má við síðdegisskúrum á stöku stað. Allhvöss norðvestanátt austantil á landinu í nótt og á morgun með snörpum vindhviðum við fjöll á Austfjörðum og í Öræfum sem geta verið varhugaverðar ferðavögnum. Mun hægari vindur um landið vestanvert,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.
Vætusamt verður norðan- og austantil, en skýjað með köflum sunnan- og vestanlands.
Varðandi næstu daga segir í hugleiðingunum að draga fer úr vindi og úrkomu á mánudag og hæglætisveður verður á þriðjudag. Búast má síðan við suðvestlægum áttum og birtir þá til og hlýnar fyrir austan.