Árni Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður og fjölmiðlamaður, lést aðfaranótt föstudags 82 ára að aldri. Hann fæddist á Ísafirði 14. apríl árið 1940 en foreldrar hans voru Gunnar Stefánsson f. 24.3. 1915, d. 31.1 1951 fulltrúi hjá Ferðaskrifstofu ríkisins og Ásta Árnadóttir f. 6.7 1911, d. 4.6. 2002 húsmóðir.
Árni lauk miðskólapróf í Reykjavík og stundaði síðan flugnám um tíma. Þá kynnti hann sér fjölmiðla og blaðamennsku í Bandaríkjunum.
Hann var blaðamaður við Alþýðublaðið og síðar fréttastjóri 1959–1965, ritstjóri 1976–1977 og 1985–1987. Þá var hann einnig fréttamaður og varafréttastjóri við Ríkisútvarpið 1965–1976 og fréttastjóri um hríð. Árið 1976 var hann fréttaritstjóri Vísis.
Hann var fréttamaður Ríkisútvarpsins á vettvangi þegar eldgos hófst í Heimaey í janúar 1973 og skrifaði bókina Eldgos í Eyjum.
Árni stofnaði Útvarpsauglýsingar sf. ásamt öðrum og rak í rúmt ár. Þá starfaði hann á vegum Hjálparstofnunar kirkjunnar árið 1985 við hjálparstarf í Eþíópíu.
Hann var framkvæmdastjóri hjá Slysavarnafélagi Íslands 1991–1992 og síðan framkvæmdastjóri Heilsustofnunar NLFÍ í Hveragerði.
Árni var í bæjarstjórn Reykjavíkur 1970–1974 áður en hann var kjörinn alþingismaður Norðurlands eystra árin 1978–1983. Árin 1987–1991 sat Árni á þingi fyrir Alþýðuflokkinn. Hann var forseti neðri deildar 1979 og 1989–1991.
Árni sinnti auk þessa margvíslegum öðrum störfum og félagsmálum. Hann var meðal annars formaður Starfsmannafélags Ríkisútvarpsins og Blaðamannafélags Íslands í nokkur ár, í stjórn Landverndar og í landnýtingarnefnd og ritari Alþýðuflokksins um árabil.
Eiginkona Árna er Hrefna Filippusdóttir, f. 30.1 1942) húsmóðir. Þau eiga saman dæturnar Sigríði Ástu, f. 1963 og Gunnhildi, f. 1983.