Auglýsa eftir sjálfboðaliðum í yfirþyngd

Dr. Erna Sif Arnardóttir, lektor við Verkfræði- og Tölvunarfræðideildir Háskólans …
Dr. Erna Sif Arnardóttir, lektor við Verkfræði- og Tölvunarfræðideildir Háskólans í Reykjavík. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum að leita að ungu fólki á milli 18 ára og fertugs, sem er í yfirþyngd og er ekki í skipulagðri hreyfingu, til að koma í lífstílsmeðferð til að koma í veg fyrir að fá alvarlegan kæfisvefn,“ segir Erna Sif Arnardóttir, lektor við verkfræði- og tölvunarfræðideildir Háskólans í Reykjavík.

„Nýjar rannsóknir sýna að allt að milljarður manna á heimsvísu sé með kæfisvefn á mismunandi stigi og enn fleiri sem hrjóta. Við vitum að kæfisvefninn hefur mikil áhrif á líkamlega og andlega heilsu,“ segir Erna.

Svefnbyltingin er þverfaglegt og alþjóðlegt rannsókna- og þróunarverkefni, sem leitt er af Ernu Sif, hjá Svefnsetri Háskólans í Reykjavík. Verkefnið fékk tveggja og hálfs milljarða króna styrk úr Horizion 2020 rammaáætlun ESB fyrir rannsóknir og nýsköpun.

Grípa inn í áður en kæfisvefn verði alvarlegur

„Í þessari rannsókn viljum við finna fólk sem er með vægan kæfisvefn eða er að hrjóta mikið, áður en fólk er komið með alvarlegan kæfisvefn og fylgikvilla þess. Þeir eru til dæmis hækkaður blóðþrýstingur, mikið álag á hjarta- og æðakerfi, sykursýki o.s.frv. Við viljum grípa inn í fyrr.

Það sem gerist með aldrinum og ef fólk heldur áfram að þyngjast að þá eru miklar líkur á því að fólk fái verri kæfisvefn. Við ætlum að sjá hvort við getum fengið fólk með okkur i lið í að breyta um lífstíl og fara að hreyfa sig og hugsa almennt betur um heilsuna og rannsaka hvort við getum komið í veg fyrir að það verði verra og fólk losni jafnvel við þann kæfisvefn sem það er með,“ segir Erna.

„Rannsóknir benda til þess að bæði að auka vöðvamassa og styrkja sig hafi áhrif, og líka það að léttast. Þetta hefur bæði áhrif á efri öndunarveginn og að auka öndunargetu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert