Í skoðun er að starfsemi Biskupsstofu verði á næstunni flutt í annað húsnæði. Skrifstofurými í Grensáskirkju þykir þar koma vel til greina, betur en annað sem skoðað hefur verið.
Frá haustinu 2019 hafa skrifstofur þjóðkirkjunnar verið í turninum á Höfðatorgi í Reykjavík, skv. leigusamningi til sjö ára. Nú þegar stíf aðhaldskrafa gildir í öllu starfi þjóðkirkjunnar er öllum steinum velt við og leiða til sparnaðar leitað. Hluti af þeirri viðleitni er að fara í ódýrara og jafnframt hentugra húsnæði.
„Leiðarljósið er að starfsfólk Biskupsstofu, þar með talið rekstrarskrifstofu, geti á nýjum stað verið í góðum tengslum við grasrótina og kirkjustarf úti í samfélaginu. Þess vegna höfum við horft á húsnæði Grensáskirkju, þar sem ýmis starfsemi þjóðkirkjunnar hefur verið fyrir,“ segir Pétur Markan biskupsritari. sbs@mbl.is