Flytji sjálfir inn hveitið

Sigurður Már Guðjónsson að störfum.
Sigurður Már Guðjónsson að störfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bakarar eru nú með í skoðun að hefja eigin innflutning á rekstrarvörum og hráefni, svo sem hveiti, til að bregðast við miklum verðhækkunum að undanförnu. Sigurður Már Guðjónsson í Bernhöftsbakaríi, sem á dögunum var kjörinn formaður Landssambands bakarameistara, vinnur að framgangi þess og er í samtali við Bäko, hagsmunafélag þýskra bakara, sem telja má í þúsundum.

Sem dæmi um verðhækkanir nefnir Sigurður að 25 kílóa poki af hveiti hafi í byrjun árs kostað bakara á Íslandi 1.600 krónur en sé nú seldur á 3.200 krónur. „Þessar hækkanir koma til vegna stríðsins í Úkraínu og við þeim þarf að bregðast,“ segir Sigurður Már, sem með stofnun innflutningsbandalags bakara vill losna úr viðskiptum við heildsölurnar sem bakarar skipta helst við nú.

Í dag eru á Íslandi starfandi alls 46 bakarí en voru fleiri en 100 þegar best lét. Í dag er þó aðeins um þriðjungur bakaría á Íslandi í samtökunum; 14 bakarí, en 32 utan þeirra. „Við þurfum að fá fleiri til liðs við okkur þannig að efla megi greinina og fagið. Einnig verður að skapa nútímalega ímynd með skírskotun í handverkið og hinn aldagamla bakgrunn greinarinnar,“ segir Sigurður Már sem vill hefja handverksbakstur til vegs og virðingar. Mest af því brauðmeti sem landinn neytir nú og er selt í stórmörkuðunum sé verksmiðjuframleitt. Æskilegt sé hins vegar að verslunarkeðjurnar fari í ríkari mæli að taka inn handunnin brauð og kökur, samanber þróun í verslunum til dæmis í Þýskalandi. 

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert