Málflutningur dómara skjóti skökku við

Sigríður Á. Andersen, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Sigríður Á. Andersen, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigríður Á. Andersen, fyrrverandi þingmaður og dómsmálaráðherra, segir það vera sanngjarnt og eðlilegt að endurgreiða ríkissjóði ofgreidd laun. Hún segir málflutning formanns Dómarafélags Íslands vera umhugsunarverðan.

Sigríður segist í samtali við mbl.is ekki enn hafa fengið bréf frá fjársýslu ríkisins með upplýsingum um leiðréttinguna en endurgreiðslan er afturvirk um þrjú ár.

45 einstaklingar sem eru hættir í starfi þurfa að endurgreiða ríkissjóði en Sigríður hætti á þingi í fyrra.

„Ég geri ráð fyrir að ég fái þetta bréf. Um er að ræða greinilega ofgreiðslu úr ríkissjóði sem að sanngjarnt og eðlilegt er að endurgreiða,“ segir Sigríður og bætir við að endurgreiðslan komi misvel upp á fólk þar sem að sumir eru ekki enn í starfi. 

„Ég fer bara að safna fyrir þessari endurgreiðslu með einhverjum hætti, byrja að drekka gos og selja flöskur,“ segir hún kímin. 

Heild­ar­upp­hæðin nemur um 105 millj­ón­um króna en Sigríður á eftir að fá upplýsingar um hversu mikið hún þarf að endurgreiða. Hún gerir ráð fyrir að um sé að ræða um þriðjung af mánaðarlegu þingfarakaupi. 

„Ég hef ekki séð á hverju misstökin byggðu en þetta kemur oft upp að ríkið ofgreiði, úr bæði tryggingakerfinu og jafnvel launakerfinu líka, og þá hefur það ekki þótt neitt tiltöku mál að óska eftir endurgreiðslu.“

Ekki kjaraskerðing

Kjart­an Björg­vins­son, formaður Dóm­ara­fé­lags Íslands, mótmælti ákvörðun fjársýslunnar í gær og sagði að aðgerðin setji alla sem reki mál á hend­ur rík­inu í þá stöðu að eiga von á því að fram­kvæmda­valdið geti lækkað laun dóm­ara eft­ir eig­in geðþótta. 

Þar með séu borg­ar­arn­ir svipt­ir rétt­látri málsmeðferð og því að geta borið mál sín und­ir sjálf­stæðan og óvil­hall­an dóm­stól í sam­ræmi við ákvæði stjórn­ar­skrár­inn­ar og Mann­rétt­inda­sátt­mála Evr­ópu.

Sigríður segir að málflutningur Kjartans skjóti skökku við.

„Að halda því fram að íslenskir dómarar séu í hættu við að dæma með ómálefnalegum hætti. Ég get ekki skilið orð hans öðru vísi en svo að það sé sú hætta búin réttarríkinu hér að þeir fari að dæma með einhverskonar ómálefnalegum hætti verði þeir krafðir um þessa endurgreiðslu af ríkissjóði. Mér finnst það umhugsunarefni.“

Þá nefnir hún að Kjartan líki saman endurgreiðslunni við kjaraskerðingu, „sem það svo sannarlega er ekki.“

Sigríður segir að ef um sé að ræða hærri greiðslu úr ríkissjóði en sem nemi lögbundnum kjörum þá sé það ekki kjaraskerðing.

„Mér sýnist hann gera athugasemdir við hvort tveggja endurgreiðsluna og einnig að frá með þessum mánaðarmótum þá séu greidd út sú fjárhæð sem lögin kveða á um.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert