Norskur biskup táraðist þegar hún sá regnbogann

Regnboginn er fyrir utan Glerárkirkju á Akureyri.
Regnboginn er fyrir utan Glerárkirkju á Akureyri. Ljósmynd/Aðsend

Norskur biskup táraðist þegar hún sá regnbogann sem málaður hefur verið á stéttina fyrir utan Glerárkirkju á Akureyri, að sögn Sindra Geirs Óskarssonar, sóknarprests á Akureyri, en regnboginn var málaður til að sýna samstöðu með hinsegin fólki.

Tveir létust í árás sem átti sér stað um síðu helgi við skemmtistaðainn London Pub í Ósló, sem er vinsæll samkomustaður hinsegin fólks, en að sögn Sindra snerti árásin nokkra presta í umdæmi norska biskupsins persónulega og var hún því þakklát fyrir regnbogann á Akureyri.

„Árásin í Ósló sat í henni og hún sendi mynd á nokkra hinsegin presta í hennar umdæmi til að minna þau á að við séum mörg sem stöndum með hinseginsamfélaginu,“ skrifaði Sindri í færslu á Twitter þar sem hann deilir myndum af Agnesi biskup ganga eftir regnboganum.

Hugmyndin kviknaði í vetur

Hugmyndin að því að mála regnbogann kviknaði fyrr í vetur en varð ekki að veruleika fyrr en bæjarfulltrúi á Akureyri málaði slíkan regnboga fyrir utan húsið sitt. Þá ákvað Sindri að heyra í nokkrum meðlimum kórsins og ákveðið var að mála regnbogann.

„Það er svolítið af hinsegin fólki í kórnum og kirkjustarfinu í Glerárkirkju og okkur leist svolítið vel á það að skella þessum regnboga fyrir framan kirkjuna. Þannig að við létum vaða,“ segir Sindri.

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands og Jógvan Friðriksson, biskup Færeyja.
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands og Jógvan Friðriksson, biskup Færeyja. Ljósmynd/Aðsend

Uppgjör í þjóðkirkjunni

Hann bendir á að ákveðið uppgjör eigi sér nú stað við þann þátt í sögu þjóðkirkjunnar að hafa ekki verið opin gagnvart hinsegin fólki en það tengist sameiginlegu verkefni kirkjunnar og samtakanna '78: „Ein saga, eitt skref.“

Norræn biskupafundur hefur undanfarna daga verið haldinn á Akureyri. Lokamessan var haldin í Glerárkirkju í gær og það var þá sem norksi biskupinn sá regnbogann.

Sindri segir að sér hafi þótt það sterkt að lokamessan væri haldin á þessum stað og að biskuparnir hefðu rölt upp regnbogann enda fólk sem þekkir veruleika sem er íhaldssamari en hér á landi.

Sindri Geir er sóknarprestur í Glerárkirkju á Akureyri.
Sindri Geir er sóknarprestur í Glerárkirkju á Akureyri. Ljósmynd/kirkjan.is

Meiri andstaða en við þekkjum á Íslandi

Hann bendir á að í mörgum kirkjum Norðurlandanna sé að finna meiri andstöðu gegn samkynhneigðum en við þekkjum á Íslandi.

„Þó að þjóðkirkjan hafi verið slæm þá man ég þegar ég var að þjóna í Noregi að þá voru margir þar sem samþykkja ekki einu sinni að konur séu prestar,“ bætir hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert