Lögreglan hafði í ýmsu að snúast í nótt en alls 77 mál voru skráð frá 17.00 – 05.00 og gistu þrír í fangageymslu. Sjö ökumenn voru teknir fyrir akstur undir áhrifum og sjö umferðaróhöpp urðu.
Í hverfi 101 var aðili í annarlegu ástandi handtekinn fyrir eignaspjöll á hraðbanka. Aðilinn var auk þess með fíkniefni í fórum sínum og var vistaður í þágu rannsóknar máls í fangageymslu, að því er kemur fram í dagbók lögreglu.
Annar aðili var handtekinn í sama hverfi en þar var hann til ama. Kemur fram að eftir handtöku hafi hann hótað lögreglu lífláti en hann var með fíkniefni í fórum sínum. Sá var einnig vistaður í þágu rannsóknar máls í fangageymslu.
Tilkynnt var um þjófnað úr verslun í hverfi 200 en málið var afgreitt með vettvangsformi.
Þá varð umferðaróhapp m.a. í hverfi 110 þar sem minniháttar slys urðu á fólki.