Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir hækkandi greiðslubyrði íbúðalána munu koma fram í minni einkaneyslu með haustinu. Það geti haft mikil áhrif á neyslumynstrið.
„Það hlýtur að vera áhyggjuefni að kaupmáttur skuli hafa farið minnkandi, eftir að hafa verið í hæstu hæðum í upphafi ársins, og muni að óbreyttu fara minnkandi,“ segir Andrés sem telur aðspurður að áhrifin af hærri greiðslubyrði íbúðalána séu ekki að fullu komin fram í mælingum á kaupmætti. En Seðlabankinn hefur hækkað vexti jafnt og þétt í ár.
„Ef þetta ástand varir lengi, sem allt bendir því miður til, þá mun það ekki auðvelda kjarasamningsgerðina sem hefst eftir sumarið,“ segir Andrés og bendir á að síðasta vaxtahækkun, 22. júní sl., sé ekki að fullu komin fram í greiðslubyrðinni.
Minni ráðstöfunartekjur muni hafa áhrif á neyslumynstrið.
„Fólk mun áfram þurfa að kaupa nauðsynjar en aðrar tegundir verslunar en þær sem uppfylla grunnþarfir munu væntanlega finna fyrir þessu. Þegar greiðslubyrði íbúðalána hækkar jafn mikið og útlit er fyrir mun það hafa áhrif á það hvert fólk beinir neyslu sinni.“
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út laugardaginn 2. júlí.