Fá áfallahjálp hjá sendiráðinu

Fólk er slegið yfir atburðum helgarinnar. Íslendingar á staðnum geta …
Fólk er slegið yfir atburðum helgarinnar. Íslendingar á staðnum geta leitað til prests á vegum íslenska sendiráðsins. AFP

„Danmörk er friðsæll staður og Kaupmannahöfn er örugg. Fólk er slegið yfir þessum atburðum,“ segir Helga Hauksdóttir, sendiherra Íslands í Danmörku. Þrír létust og fjórir særðust alvarlega í skotárás í verslunarmiðstöðinni Field's í Kaupmannahöfn í gær. 

„Við erum með prest starfandi fyrir íslenska söfnuðinn og hann er með starfsstöð hér í íslenska sendiráðinu. Hann verður til taks ef fólk óskar þess,“ segir Helga. 

Helga Hauksdóttir sendiherra Íslands í Danmörku.
Helga Hauksdóttir sendiherra Íslands í Danmörku. Ljósmynd/Utanríkisráðuneytið

Íslendingar á staðnum 

Helga segir fólk slegið yfir atburðum helgarinnar. Íslendingar hafa haft samband við sendiráðið ýmist til þess að komast aftur heim eða til þess að fá áfallahjálp. 

„Það voru Íslendingar á staðnum. Þeir voru ekki margir en auðvitað er fólk skelkað,“ segir hún og bætir við að sendiráðið viti ekki til þess að neinn Íslendingur hafi slasast. 

Tónleikum Harry Styles sem fara áttu fram í dag, var frestað vegna árásarinnar. Þó haldast sumir hlutir í fyrra horfi í borginni. Til dæmis var umferðin ósköp venjuleg þegar sendiherrann fór til vinnu í morgun en Field's hefur verið lokað vegna vettvangsrannsókna. Árásarmaðurinn hefur verið yfirheyrður og er hvorki talið að um hryðjuverk né hatursglæp hafi verið að ræða.

Rannsókn málsins stendur yfir og árásarmaðurinn hefur verið yfirheyrður.
Rannsókn málsins stendur yfir og árásarmaðurinn hefur verið yfirheyrður. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert