Ungt fólk á framhaldsskólaaldri og eldri sundiðkendur eru hvað spenntastir fyrir miðnæturopnun í Laugardalslaug, að mati Árna Jónssonar, forstöðumanns Laugardalslaugar. Þar verður opið til miðnættis á fimmtudögum frá og með 4. ágúst næstkomandi, fram að áramótum og lengur ef vel tekst til.
„Ég hef heyrt jákvæðar undirtektir. Við erum ótrúlega spennt yfir því að prófa þetta og vera ófeimin við að leyfa þessu að þroskast,“ segir hann. Laugardalslaug hefur reynslu af miðnæturopnunum, til dæmis eftir miðnæturhlaup Suzuki, en þá fréttu framhaldsskólanemar af opnuninni og fjölmenntu á staðinn.
„Það er auðvitað ótrúlega jákvætt að þau séu að koma og vera í svona heilbrigðu umhverfi. En við viljum auðvitað ekki að þau séu að vaka lengi í haust,“ segir Árni. „Við viljum ekki hafa neikvæð áhrif á skólagönguna.“
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag.