„Sá bara haug af ljósum“

Tónleikagestir héldu að tónleikum Harry Styles hafi verið frestað um …
Tónleikagestir héldu að tónleikum Harry Styles hafi verið frestað um eina klukkustund eftir skotárásina. Mikil óreiða var á svæðinu að sögn Íslendings sem þar var. AFP

Matth­ías Már Magnús­son var stadd­ur í neðanj­arðarlest í Kaup­manna­höfn þegar lest­in stöðvaðist og öll­um var skipað að fara út. Hann var á leiðinni á tón­leika með Harry Sty­les, með dótt­ur sinni og vin­konu henn­ar, þegar 22 ára árás­armaður hleypti af skot­um í versl­un­ar­miðstöðinni Field's og varð þrem­ur að bana.

„Metróið stopp­ar bara þarna og öll­um sagt að fara út. Þetta var ekki á stopp­inu á Field's held­ur næsta fyr­ir ofan. Ég sá bara haug af ljós­um í átt­ina að moll­inu, og hinum meg­in líka. Það var bara verið að loka öllu,“ seg­ir hann og voru gefn­ar þær skýr­ing­ar að í gangi væri lög­regluaðgerð.

Sagt að tón­leik­un­um myndi seinka um klukku­stund

„Svo fer ég að tala við ein­hverja Dani og fyrstu upp­lýs­ing­ar eru að þetta hafi verið minni­hátt­ar og það sé búið að ná árás­ar­mann­in­um. Og að við þyrft­um að ganga lengri leið á tón­leik­ana, sem og við ger­um. Það labba all­ir ró­lega og við þurf­um að taka sveig að tón­leik­un­um,“ seg­ir hann og var þangað komið um sjöleytið en tón­leik­arn­ir áttu að hefjast klukk­an átta. 

„Við setj­umst bara inn og það var svo­lítið af lögg­um.“

Sautján þúsund aðdá­end­ur ætluðu að sjá Harry Sty­les í gær­kvöldi og fékk Matth­ías ekki önn­ur skila­boð en að tón­leik­arn­ir ættu að fara fram. Á meðan þyrl­ur sveimuðu yfir staðnum fór fólk að tín­ast í sæt­in sín.

„Og við setj­umst bara í sæt­in okk­ar. Síðan kem­ur ein­hver á sviðið og seg­ir að tón­leik­arn­ir byrji klukk­an níu. Þá eru bara sautján þúsund manns í sím­an­um að fylgj­ast með frétt­um og fólk fer að tín­ast út,“ seg­ir hann. 

„Það lít­ur út eins og tón­leik­un­um hafi verið af­lýst áður en við viss­um það.“

Til­finn­inga­samt í höll­inni

„Svo er nátt­úru­lega til­kynnt að tón­leik­arn­ir verði ekki haldn­ir. Ég er með tvær þrett­án ára sem eru mikl­ir aðdá­end­ur Harry Sty­les, og ég líka. Það var áhuga­vert hljóð sem kom í höll­inni þegar það var til­kynnt að tón­leik­arn­ir færu ekki fram. Og eðli­lega, á meðan allt þetta geng­ur á,“ seg­ir hann. 

Í fram­hald­inu var aðdá­end­um hleypt út úr höll­inni í holl­um og all­ir send­ir í neðanj­arðarlest­ina. 

„All­ir i sjokki, grát­andi yfir árás­inni og yfir því að missa af tón­leik­un­um,“ sagði hann. Lest­in hafi brunað fram­hjá öll­um stopp­un­um og öll­um hent út á enda­stöðinni. 

„Við enduðum bara á að labba heim, eins og hálfs tíma ganga.“ 

Tón­leik­ar Harry Sty­les sem áttu að fara fram í gær áttu upp­haf­lega að fara fram árið 2020. Þó er stutt síðan Matth­ías keypti sína miða.

„Þetta bíður bara betri tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert