Safngripur í skúrnum

Gísli S. Eiríksson í BMW-sportbílnum árgerð 2003.
Gísli S. Eiríksson í BMW-sportbílnum árgerð 2003. mbl.is/Arnþór

Bílar af öllum stærðum og gerðum hafa verið líf og yndi Gísla S. Eiríkssonar frá því hann var barn. „Bílar hafa alltaf fylgt mér, ég keypti fyrsta bíl minn með pabba sex mánuðum áður en ég fékk bílprófið 17 ára og síðan hef ég átt á þriðja hundrað bíla,“ segir hann.

Um þessar mundir á BMW, tvennra dyra sportbíll árgerð 2003 sem lítur út eins og nýr þótt nær tuttugu ára sé, hug hans allan. „Hann er einn örfárra bíla á Íslandi með þetta útlit,“ segir hann hróðugur. Þau hjónin hafi keypt bílinn á Spáni fyrir nokkrum árum og flutt hann heim fyrir um þremur árum. „Ég hef lítið þurft að gera fyrir hann enda er hann mjög fínn eins og hann er. BMW-bílar eru enda vandaðir og ég kann vel við þá.“

Djásnið er með einkanúmerið BMW Z4. „Númerið er í raun tegundin og því er það ekki venjulegt, en það er hluti dellunnar. Ég hef áður verið með einkanúmer en þetta er sérstakt enda er bíllinn sérstakur.“

Unnið við bíla í áratugi

Gísli er húsasmiður að mennt og starfaði sem slíkur en eftir að hann slasaðist illa varð hann að fá sér aðra vinnu og hóf störf hjá bílaumboðinu Bifreiðum og landbúnaðarvélum, þar sem hann var deildarstjóri í varahlutadeild og sá meðal annars um að panta varahluti í bíla. „Ég ílengdist hjá B & L í 30 ár, ekki síst vegna þess að þar snerist allt um bíla og því skemmtilegt í vinnunni.“

Fyrsti bíllinn, sem Gísli keypti með föður sínum, var Volkswagen Variant, en rétt eftir að hann tók bílprófið fékk hann sér eigin bíl. „Það var gömul Volkswagen-bjalla.“ Um árabil hefur hann keypt bíla, lagað þá sjálfur eða farið með þá á viðurkennd verkstæði, ef þess hefur þurft, og síðan selt þá aftur. Lengi vel var hann einn í þessu en Gísli sonur hans hefur verið með honum undanfarin ár.

Gísli leggur áherslu á að stússið við bílana sé áhugamál. „Við höfum alltaf lagt okkur fram við að hafa bílana okkar í 100% lagi, höfum gert frekar meira en minna fyrir þá.“ Hann bendir á að hann sé hættur að vinna og gott sé að hafa svona verkefni í þrönga bílskúrnum, þar sem hann dundi sér oft í gryfjunni. „Ég þekki marga bifvélavirkja eftir að hafa unnið lengi í faginu og þegar mikið er að fer ég með bílana á viðurkennd verkstæði og læt laga það sem þarf að laga. Þetta er skemmtilegt áhugamál.“

Tegundirnar eru margar og bílarnir enn fleiri sem hafa öðlast nýtt og betra líf í höndum Gísla. „Ég hef reyndar verið lítið í amerískum bílum, því það er meira mál að laga þá en aðra bíla.“

Hann segist sérstaklega hrífast af svokölluðum „sparibílum“, sem séu oftar en ekki lítið keyrðir. „Sem betur fer eru margir sérstakir bílar til á Íslandi,“ segir hann og snýr sér að sportbílnum sínum. „Ég væri örugglega meðlimur í Fornbílaklúbbnum ef ég ætti nógu gamlan bíl, en ég keyrði BMW-inn 153 kílómetra árið 2020 og aðeins meira í fyrra. Hann er eiginlega bara safngripur í skúrnum.“

Einkanúmerið BMW Z4 segir allt um tegundina.
Einkanúmerið BMW Z4 segir allt um tegundina. mbl.is/Arnþór
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert