Borinn út af veitingastað af fjórum

Lögreglan að störfum í miðbænum.
Lögreglan að störfum í miðbænum. mbl.is/Ari

Laust fyrir klukkan eitt í nótt var tilkynnt um aðila sem var borinn út af veitingastað af fjórum aðilum vegna þess að hann stóð ekki fæturna sökum ölvunar. Þegar lögregla kom á vettvang kom aðilinn ekki upp orði og átti erfitt með að sitja óstuddur.

Hann var fluttur á lögreglustöðina við Hverfisgötu og var hann vistaður þar sökum ástands enda með öllu ósjálfbjarga, að mati þeirra lögreglumanna sem sinntu útkallinu, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Ók á 170 km hraða

Bifreið var stöðvuð í Reykjavík um hálfeittleytið í nótt eftir hraðamælingu á 170 til 180 km hraða. Ökumaðurinn taldi sig vera á 130 km hraða. Hann viðurkenndi neyslu kannabis fyrr um kvöldið. Ökumaðurinn var handtekinn og fluttur á lögreglustöð þar sem hann afhenti ökuskírteini og var sviptur ökurétti til bráðabirgða.

Tilkynnt var um mikinn framkvæmdarhávaða í austurborginni upp úr klukkan hálfeitt í nótt. Lögreglan fór á vettvang og ræddi við verktaka sem lofaði því að vera ekki með slíkan hávaða aftur.

Fúll út í spilakassa

Á öðrum tímanum í nótt tilkynnti starfsmaður veitingastaðar í miðbæ Reykjavíkur um viðskiptavin sem hótaði starfsfólki og neitaði að yfirgefa staðinn. Þegar lögreglan kom á vettvang var nokkuð ljóst að viðkomandi hafði innbyrt talsvert magn af áfengi og var hann sérlega fúll út í spilakassa sem átti að hafa haft af honum talsverða fjármuni. Lögreglan ræddi við viðkomandi á vettvangi og var honum vísað út af veitingastaðnum.

Hálfur inni í bifreið

Um svipað leyti í nótt var tilkynnt um grunsamlegar mannaferðir í miðborg Reykjavíkur. Sá sem lét lögregluna vita kvaðst hafa séð aðila, hálfan inni í bifreið og grunaði tilkynnanda að um innbrot í bifreið væri að ræða. Taldi sá sem tilkynnti aðilana vera grunsamlega og í annarlegu ástandi. Lögreglan fór á vettvang og setti sig í samband við skráðan eiganda bifreiðarinnar. Hann kvaðst ætla að ganga í málið um morguninn og var það mat eigandans að hann þyrfti ekki frekari aðstoð frá lögreglu.

Um tvöleytið í nótt var tilkynnt um aðila í austurbænum sem voru að spila háværa tónlist utandyra. Lögreglan fór á vettvang og ræddi við þá og gerði þeim grein fyrir því að þetta væri ekki í boði um miðja nótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert