Anton Guðjónsson
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist efast um það að almenningur vilji laun sín tengd vísitölu eins og gert er hjá æðstu embættismönnum þjóðarinnar.
„Við höfum verið að vinna að því að kaupmáttur fólks aukist og lífskjör batni. Ég efast um að fólk vilji binda þetta fast við neysluvísitölu. Við viljum kjarasamninga á almennum markaði sem setja viðmið við það sem síðar gerist,“ segir Katrín í samali við mbl.is er hún var spurð um hugmynd Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, um að fylgja fordæmi þingmanna í komandi kjarasamningaviðræðum og tengja laun á almennum launamarkaði við vísitölu.
„Það er í kjarasamningum á almennum launamarkaði sem grunnurinn er lagður af launaþróun,“ bætir Katrín við.
„Nú er það svo að launavísitala hefur sögulega séð verið hærri en neysluvísitala og það hefur útskýrt kaupmáttaraukninguna sem hefur orðið. Launafólk hefur í raun og veru verið að fá kaupmáttaraukningu á Íslandi, meira að segja í gegnum heimsfaraldur sem er mjög óvenjulegt þegar við berum okkur saman við nágrannalönd okkar,“ segir Katrín.
Hún segir að kjararáð sem var hér áður hafi verið gagnrýnt fyrir ógagnsæi og fyrir það að vera „ekki mjög sanngjarnt“. Laun hafi hækkað á nokkurra ára fresti jafnvel um tugi prósenta á einni nóttu.
„Það sem við gerðum var að lögfesta laun æðstu embættismanna, skilgreina skýrt hvaða vísitölu ætti að miða við til þess að auka gagnsæi. Ég held það vilji enginn fara til baka í gamla fyrirkomulagið,“ segir Katrín.