„Falin gersemi“ einn merkasti fornleifafundur Íslands

Hér má sjá barnavettlingana sem voru saumaðir úr mórauðu vaðmáli.
Hér má sjá barnavettlingana sem voru saumaðir úr mórauðu vaðmáli. Ljósmynd/Aðsend

Barnavettlingar sem fundust árið 1960 hafa nú verið aldursgreindir og er þar með staðfest að vettlingarnir séu frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Tvö sýni tekin úr vettlingunum sýna að þeir séu frá seinni hluta tíundu aldar eða frá bilinu 950 til 1000. 

Vettlingarnir fundust árið 1960 þegar bóndi í Heynesi í Innri-Akranesarhreppi var að grafa fyrir húsgrunni. Fann bóndinn þá laglega sniðna smábarnavettlinga, saumaða úr mórauðu vaðmáli á tveggja metra dýpi í jörðinni.

Kristján Eldjárn, þáverandi þjóðminjavörður – sem síðar varð forseti Íslands, taldi alltaf að þeir væru frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Þessi grunur Kristjáns hefur nú verið staðfestur, 62 árum eftir að vettlingarnir fundust. 

Merkilegir gripir á heimsvísu

Freyja Hlíðkvist Ómarsdóttir, sérfræðingur í munasafni Þjóðminjasafnsins, segir það mjög ánægjulegt og ákveðinn létti að fá þessa staðfestingu. Tekur Steindór Gunnar Steindórsson, samskiptastjóri Þjóðminjasafnsins, undir það og bendir á að skandinavískir textílfræðingar sem sinntu rannsóknum á safninu snemma á árinu höfðu dregið aldur vettlingana í efa. 

Steindór segir að textílfræðingarnir hafi sagt að ef aldur vettlingana yrði sannaður væri um að ræða einstakan fornleifafund á heimsvísu. „Þegar þeir lásu til um aldurinn sögðu þeir að þetta væru mjög merkilegir gripir á heimsvísu því að það hafa ekki fundist svona heillegir vettlingar norðarlega í Atlantshafinu fyrr,“ segir Steindór.

Steindór segir ástæðuna fyrir góðu ásigkomulagi vettlingana vera að þeir fundust í mýri. „Jarðvegurinn á Íslandi er almennt mjög grimmur við textíl en mýrin hefur varðveitt þessa vettlinga vel.“

Þúsund ára gömul tíska

Steindór bendir að auki á að Þjóðminjasafnið hafi einnig fengið það staðfest í aldursgreiningunni að snúran á milli vettlingana tveggja væri jafn gömul og vettlingarnir og því um þúsund ára tísku að ræða. 

„Snúran sem heldur þeim saman og var alveg í tísku fram til 1980 eins og flestir muna eftir hefur því verið í tísku í þúsund ár.“ Bætir Steindór við að svona snúrur sem tengja saman vettlinga duttu aðeins úr tísku af öryggisástæðum. 

Falin gersemi

Vettlingana, auk tvo þúsund annarra gripa, er hægt skoða á grunnsýningu Þjóðminjasafns Íslands á Suðurgötu 41 milli klukkan 10:00 og 17:00 alla daga vikunnar. 

Steindór segir það mikilvægt að spyrja um vettlingana þegar það er komið í safnið til að sjá þá. Vettlingarnir eru nefnilega varðveittir í skúffu sem fólk þarf að biðja um að láta opna fyrir sig svo maður geti borið þá augum. Er þetta gert til að verja vettlingana frá ljósi, raka og öðru sem gæti haft skaðleg áhrif á þá.

„Þetta er falin gersemi og leyndarmál innan Þjóðminjasafnsins. Þetta er ekki eitthvað sem þú labbar beint að upplýstu á meðan að englasöngur heyrist. Þarna er maður lítill Indiana Jones að fara inn á safn og leita uppi dýrgripina sjálfur,“ segir Steindór kíminn að lokum.

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert