Komu hundi í hrakningum til bjargar

Dýralæknir og björgunarsveitarfólk hlúa að hundinum.
Dýralæknir og björgunarsveitarfólk hlúa að hundinum. Ljósmynd/Landsbjörg

Björgunarsveitir voru tvisvar kallaðar út á áttunda tímanum í kvöld. Annað útkallið var vegna hunds sem hafði fallið af kletti og hitt vegna mótorhjólaslyss.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbjörg. 

Óskað var eftir aðstoð björgunarsveitar og dýralæknis á Sauðárkróki en hundur hafði lent í hrakningum í klettum við Gönguskarðsá í Skagafirði. Hundurinn hafði verið á göngu með eiganda sínum þegar hann féll um 20 metra fram af kletti og lá meðvitundarlaus í urð þangað sem illfært var.

Hundurinn féll 20 metra fram af kletti.
Hundurinn féll 20 metra fram af kletti. Ljósmynd/Landsbjörg

Segir í tilkynningu að dýralæknir hafi að lokum komist að hundinum sem rankaði við sér eftir að hafa legið hreyfingalaus í nokkurn tíma. Þá var annar dýralæknir í björgunarsveitinni og komu þeir og annað björgunarsveitarfólk hundinum úr hrakningunum og hlúðu að honum.

Ferðamaður fékk höfuðhögg

Björgunarsveit á Mývatni var síðan kölluð til stuttu síðar vegna mótorhjólaslyss í grennd við Hrossaborg við afleggjarann að Herðubreiðarlindum en ferðamaður fékk þar höfuðhögg.

Þegar björgunarsveitarfólk mætti á vettvang hafði vegfarandi komið manninum til aðstoðar og ekið honum til móts við sjúkrabíl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert