Margrét nýr aðstoðardagskrárstjóri hjá Rúv

Margrét tekur formlega til starfa þann 1. september.
Margrét tekur formlega til starfa þann 1. september. Ljósmynd/ Rúv

Margrét Jónasdóttir hefur verið ráðin í starf aðstoðardagskrárstjóra hjá Rúv. Í því starfi mun hún hafa faglega umsjón með innkaupum og framleiðslu á heimildaefni. Þá mun hún leiða, í samvinnu við dagskrárstjóra, hugmyndavinnu, þróun, framleiðslu og kaup, stefnumótun, gæðamat og gæðaeftirlit með öllu heimildaefni fyrir sjónvarp. 

Ríkisútvarpið hyggst endurskipuleggja ferla sem snúa að mati, vali, innkaupum og samframleiðslu Rúv á hvers kyns heimildaefni og auka þannig skilvirkni og gagnsæi. Styrkja á  gæðastjórnun og miðlun samhliða því að efla þátt heimildaefnis í dagskrá Rúv almennt. Mun Margrét leiða það ferli. 

Langur og farsæll ferill

Margrét er með meistaragráðu í samtímasögu frá University College Londin og hefur einnig lagt stund á meistaranám í menningarstjórnun við Háskólann á Bifröst. 

Hún á að baki langan og farsælan feril í framleiðslu og handritsskrifum heimildarmynda, lengst af í starfi yfirmanns heimildarmyndadeildar og aðalframleiðanda hjá Sagafilm,“ segir í tilkynningu frá Rúv. 

Margrét hefur sinnt ýmsum nefndarstörfum, setið í stjórnum og dómnefndum sem tengjast kvikmyndagerð, heimildarmyndaframleiðslu, bæði hérlendis og erlendis. 

Fyrri störf muni nýtast vel

Meðal þeirra verka sem Margrét hefur framleitt og unnið handrit að eru Out of thin air, sem framleidd var fyrir BBC, Rúv og Netflix um Guðmundar- og Geirfinnsmálið, Vasulka áhrifin, Hækkum rána. Þáttaröðin Öldin hennar var framleidd fyrir Rúv, The Show of Shows og Andlit norðursins. Þá gerði Margrét tíu þátta heimildaseríu sem heitir Fullveldisöldin, heimildarverkefnið Hanging Out og Good Banks/Bad Banks. 

„Reynsla Margrétar, fyrri störf hennar og menntun gera að verkum að hún býr yfir afar yfirgripsmikilli þekkingu á framleiðslu heimildaefnis sem mun tvímælalaust nýtast í starfi hennar fyrir Rúv og almennt reynast íslenskri heimildarmyndagerð afar vel,“ er haft eftir Skarphéðni Guðmundssyni, dagskrárstjóri sjónvarps hjá Rúv, í tilkynningunni.

„Framundan eru spennandi verkefni við að skerpa á ferlum í kringum framleiðslu og innkaup heimildaefnis til að styrkja enn frekar stöðu heimildaefnis í dagskrárframboði Rúv, bæði í línulegri dagskrá og spilara. Það er mikill fengur í að fá Margréti til að leiða þá mikilvægu vinnu.“

Margrét tekur formlega til starfa þann 1. september. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert