Skoðar stofnanaskipulag ráðuneytisins

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, ásamt ráðuneytisstjóra, skrifstofustjórum …
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, ásamt ráðuneytisstjóra, skrifstofustjórum og forstöðumönnum stofnana ráðuneytisins. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis- orku- og loftslagsáðherra hefur ákveðið að taka til skoðunar stofnanaskipulag ráðuneytisins með það að markmiði að efla og styrkja starfsemi stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. 

Kemur fram í tilkynningu að Guðlaugur hafi, á ríkisstjórnarfundi í morgun, kynnt þá vinnu sem nú er hafin við að greina umbótatækifæri og áskoranir sem felast í núverandi stofnanakerfi ráðuneytisins.

Stofnanir umhverfis- orku- og loftslagráðuneytisins eru 13 talsins. Hjá þeim starfa 600 starfsmenn á um 40 starfsstöðvum víða um land og eru 61% starfanna  á höfuðborgarsvæðinu.

Opinber störf ekki staðbundin

„Með því að stækka skipulagseiningarnar er hægt að efla, styrkja og samræma betur starf stofnana ráðuneytisins og þannig auka slagkraft þeirra, auk þess sem ýmis tækifæri liggja í auknu samstarfi opinberra aðila við að byggja upp sameiginlegar starfsstöðvar. Þá þarf einnig að horfa til þess að opinber störf séu ekki staðbundin, nema eðli starfsins krefjist þess sérstaklega og þannig er hægt að styðja við byggðaþróun og valfrelsi í búsetu,“ er haft eftir Guðlaugi í tilkynningunni.

Þá er gert ráð fyrir því að niðurstöður greiningarinnar liggi fyrir í lok þessa árs.

Þær stofnanir sem heyra undir ráðuneytið eru: Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR), Landmælingar Íslands, Minjastofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrurannsóknarstöðin við Mývatn, Orkustofnun, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, Umhverfisstofnun, Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, Úrvinnslusjóður, Vatnajökulsþjóðgarður, Veðurstofa Íslands, Þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert