Veðurstofa Íslands hefur gefið út gular viðvaranir víða um land sem byrja að taka gildi í nótt. Klukkan þrjú í nótt tekur fyrsta viðvörunin gildi en það er á miðhálendinu vegna suðvestanhvassviðris.
„Búast má við mjög snörpum og varhugaverðum vindhviðum við fjöll, 30-35 m/s og sandfoki. Varasamar eða hættulegar aðstæður fyrir ferðamenn og útivistafólk. Fólki bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám,“ segir á vef Veðurstofu Íslands um ástandið á miðhálendinu sem verður metið gult til klukkan níu annað kvöld.
Klukkan níu í fyrramálið tekur svo gul viðvörun gildi á Suðausturlandi vegna allhvassrar eða hvassrar suðvestanáttar.
„Suðvestan 13-20 m/s með vindhviðum að 35 m/s í Öræfum og Mýrdal. Varasamt ökutækjum sem taka á sig mikinn vind,“ segir um veðrið á Suðausturlandi. Viðvörunin þar gildir til miðnættis.
Klukkan tíu bætast Strandir og Norðurland vestra annars vegar og Norðurland eystra hins vegar í gula hópinn vegna suðvestanhvassviðris. Viðvaranirnar gilda til klukkan níu annað kvöld.
„Suðvestan hvassviðri, 13-18 m/s, einkum austantil. Búast má við mjög snörpum vindhviðum við fjöll 25-30 m/s, sem geta verið varhugaverðar fyrir vegfarendur með aftanívagna eða á ökutækjum sem taka á sig mikinn vind,“ segir um veðrið í umræddum landshlutum.