Héraðsdómur Suðurlands sýknaði í lok maí konu af kröfu Hrunamannahrepps þar sem ósannað þótti að ákvörðun hreppsins um gjaldtöku vegna framkvæmda þeirra, er krafan stafaði af, hafi verið lögmæt.
Þótti ákvörðunin ekki tekin á grundvelli laga um gatnagerðargjald eða með heimild í öðrum lögum til álagningar skatta eða þjónustugjalda.
Var sveitarfélagið jafnframt dæmt til að greiða konunni 1,2 milljónir í málskostnað.
Hrunamannahreppur hafði áform um að malbika veg í nágrenni við heimili konunnar og fékk hana til þess að skrifa undir samning um greiðsluþátttöku með innviðagjaldi.
Dómstóllinn komst að því að þetta hefði verið ólögmætt, þar sem innviðagjaldið hafi ekki verið ákveðið á grundvelli laga um gatnagerðargjald eða með heimild í lögum til álagningar skatta eða þjónustugjalda.
Slíkt geti ekki samræmst ákvæðum stjórnarskrárinnar, m.a. um að skattamálum skuli skipað með lögum (40. og 77. gr.). Fyrrverandi ríkislögmaður, Einar Karl Hallvarðsson, dæmdi í málinu.
Svigrúm sveitarfélaga til að leggja innviðagjöld með samningum er óljóst en nýverið féll dómur Hæstaréttar um svipað álitaefni, þar sem því var slegið föstu að Reykjavíkurborg hefði verið heimilt að leggja á innviðagjald með samningi við lögaðila.