Óvenjumikill fjöldi lyngbobba hefur verið á ferðinni í görðum og með gangstígum á höfuðborgarsvæðinu í sumar. Frá þessu greinir Erling Ólafsson skordýrafræðingur á Facebook-síðunni Heimur smádýranna.
„Margir sjá þessa stóru snigla í rauðbrúnum kuðungshúsum sínum meðal annars skríðandi yfir malbikaða göngu- og hjólastíga og jafnvel sem klessur undan dekkjum reiðhjóla. Þegar stigið er út í þéttvaxinn gróðurinn má stundum heyra marr undan skósólum þegar kuðungar bresta, slíkur er fjöldinn sums staðar,“ ritar Erling m.a. á síðu sína. Hann rifjar upp að um síðustu aldamót hafi lyngbobbar fyrst fundist í höfuðborginni. Þeim hafi fljótlega fjölgað og þeir dreifst um víðan völl. En fjöldinn í sumar sé engu lagi líkur.
„Lyngbobbinn þykir ekki aufúsugestur í görðum okkar því hann er töluvert átvagl og skaðar garðagróðurinn, að sjálfsögðu því meir sem fjöldi snigla verður meiri,“ segir Erling en lyngbobbinn hefur lengi verið landlægur á Austurlandi. Landnám hans syðra sé hinsvegar af innfluttum toga og þar séu sniglarnir mun stærri en þeir austurlensku.