Skipverjinn kominn í land

Í hádeginu var Björgin komin til hafnar og maðurinn fékk …
Í hádeginu var Björgin komin til hafnar og maðurinn fékk aðhlynningu frá sjúkraflutningamönnum. Ljósmynd/Landsbjörg

Björgunarskipið Björg frá Rifi er komið til hafnar með sjómann sem var um borð í brennandi strandveiðibát um tvær sjómílur norður af Rifi. Sjúkraflutningamenn hlúðu að manninum þegar hann kom í land.

Viðbúnaður vegna eldsvoðans var mikill að sögn Slysavarnafélagsins Landsbjargar þar sem hætta var talin á ferðum. Kallaðir voru til nærstaddir bátar, Björgunarskipið Björg frá Rifi og þyrla Landhelgisgæslunnar.

Eins og fram hefur komið, þá var maðurinn einn um borð og náði hann að koma sér í björgunarbát og þaðan í nærstaddan fiskveiðibát.

„Stuttu síðar kom björgunarskipið á vettvang og tók manninn um borð og hlúði að honum. Hann var hin brattasti og virtist hafa sloppið vel, hafist var handa við að slökkva í bátnum og hann síðan dregin nær landi, þar sem slökkviliðið tók við slökkvistarfinu. Í hádeginu var Björgin komin til hafnar og maðurinn fékk aðhlynningu frá sjúkraflutningamönnum,“ segir í tilkynningu frá Landsbjörg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert