Ísland hefur nú staðfest viðbótarsamninga um aðild Finnlands og Svíþjóðar að Atlantshafsbandalaginu, en Bergdís Ellertsdóttir, sendiherra Íslands í Bandaríkjunum afhenti í dag bandaríska utanríkisráðuneytinu aðildarskjöl Íslands.
Alþingi hafði áður samþykkt með þingsályktun 7. júní síðastliðinn að heimila ríkisstjórninni að staðfesta aðildarsamningana fyrir Íslands hönd þegar þeir lægju fyrir.
Í tilkynningu á vef utanríkisráðuneytisins kemur fram að Ísland sé meðal allra fyrstu bandalagsríkjanna til þess að ljúka staðfestingarferlinu, en viðbótarsamningar Finna og Svía voru undirritaðir í höfuðstöðvum Atlantshafsbandalagsins í Brussel í gærmorgun, hinn 5. júlí.
Í tilkynningunni segir að staðfest eintök undirritaðra samningsskjala hafi borist ráðuneytinu um hádegisbilið sama dag, og forseti Íslands hafi undirritað aðildarskjöl Íslands í hádeginu. „Skjölunum var því næst flogið til Bandaríkjanna um fimmleytið í gær með flugvél Icelandair. Lokahnykkurinn var svo í dag, um klukkan níu að staðartíma í Washington, þegar sendiherrann afhenti frumrit aðildarskjala Íslands líkt og stofnsáttmáli NATO áskilur,“ segir í tilkynningunni.
„Undirritun viðbótarsamninganna í gær markar söguleg tímamót fyrir Finnland, Svíþjóð og NATO. Hröð afgreiðsla aðildarumsókna þessara tveggja norrænu vinaþjóða er merki um sterka samstöðu bandalagsríkja og styrkir Atlantshafsbandalagið og þau mikilvægu gildi sem það hvílir á,“ er haft eftir Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra í tilkynningunni.
Stjórnvöld í Kanada tilkynntu í gær að þau hefðu orðið fyrst til þess að staðfesta viðbótarsamninga Finnlands og Svíþjóðar, en Norðmenn og Danir fylgdu þar fast á eftir. Í dag munu Bretar og Eistlendingar einnig staðfesta samningana, og er gert ráð fyrir að Þjóðverjar muni staðfesta þá á morgun.
Samþykki allra bandalagsríkjanna 30 er skilyrði þess að Finnar og Svíar fái aðild að NATO. Í tilkynningu utanríkisráðuneytisins segir að vonir standi til að öll bandalagsríkin nái að ljúka staðfestingarferlinu síðar á árinu.
Stjórnvöld í Tyrklandi, sem ein stóðu í vegi fyrir því fyrr í vor að hægt yrði að hefja ferlið, hafa hins vegar sagt að þau gætu enn ákveðið að staðfesta ekki umsóknirnar, fari það svo að Finnar og Svíar fylgi ekki samkomulagi, sem ríkin þrjú undirrituðu á leiðtogafundi NATO fyrir tveimur vikum.