Stækkuð bráðadagdeild var tekin í notkun á Landspítalanum í dag, en hún er í byggingu spítalans í Fossvogi. Á aukin starfsemi deildarinnar að koma til móts við þann mikla vanda sem bráðamóttakan hefur glímt við.
Á bráðadagdeild er þjónusta við sjúklinga með aðkallandi lyflæknisfræðileg vandamál sem krefjast meiri rannsókna, sérfræðimats eða meðferðar en hægt er að veita með góðu móti utan Landspítala en eru þó ekki það bráð að þau þarfnist skjótrar úrlausnar á bráðamóttöku.
Var fundarsal í skála á annarri hæð breytt í herbergi fyrir sjúklinga með sex meðferðarstólum. Jafnframt var sett herbergi í skálann, framan við herbergi þar sem sýklalyfjagjöf í æð fyrir ferlisjúklinga hefur verið, þar sem að unnt verður að skoða sjúklinga og fara yfir niðurstöður rannsókna. Þá er fyrirhugað að aðgerðarherbergi taugalækna tengt legudeild B2 flytjist á E2 og þar verði vinnuaðstaða starfsfólks bráðadagdeildar lyflæknaþjónustunnar.
Um miðjan síðasta mánuð var starfsemi bráðadagdeildar aukin þegar sett var á fót fjarþjónusta sem ætlað er að koma bráðveikum sjúklingum sem þarfnast þjónustu spítalans en þó mats eða meðferðar á bráðamóttöku í viðeigandi farveg hratt og vel.