Stöðugt landris næstu ár kæmi ekki á óvart

Land hefur risið um 33 sm við Öskju frá því …
Land hefur risið um 33 sm við Öskju frá því að það mældist fyrst fyrir rúmu ári. Myndin sýnir Öskjuvatn og fremst er sprengigígurinn Víti. mbl.is/Sigurður Bogi

„Það sem okk­ar líkön hafa verið að sýna og það sem virðist skýra þess­ar mæl­ing­ar er að kvika sé að safn­ast fyr­ir á nokk­urra kíló­metra dýpi und­ir Öskju,“ seg­ir Krist­ín Jóns­dótt­ir, nátt­úru­vár­sér­fræðing­ur hjá Veður­stofu Íslands.

Land hef­ur risið um 33 sm við Öskju frá því að það mæld­ist fyrst í byrj­un ág­úst 2021 og hef­ur hald­ist stöðugt.

„Við erum vissu­lega kom­in með tæpt ár núna en það ætti ekk­ert að koma okk­ur á óvart ef við fengj­um annað eða jafn­vel nokk­ur svona ár þar sem Askja rís jafnt og þétt og kvika safn­ast fyr­ir á nokk­urra kíló­metra dýpi.“

Týpísk­ur und­an­fari eld­goss

„Það má segja að þetta sé týpísk­ur und­an­fari eld­goss en það er ekk­ert í augna­blik­inu sem bend­ir til að það sé yf­ir­vof­andi, þetta er ein af þess­um eld­stöðvum sem við erum að fylgj­ast náið með og má í raun segja að um sé að ræða virkni um­fram eðli­lega bak­grunns­virkni,“ seg­ir Krist­ín.

Þá geti kviku­söfn­un jafn­vel hætt án þess komi til eld­goss. „Ef við vær­um far­in að nálg­ast eld­gos mynd­um við bú­ast við því að jarðskjálfta­virkni færi að aukast og það er eitt­hvað sem við höf­um ekki séð.“

Miðja þensl­unn­ar er við vest­ur­jaðar Öskju­vatns við Ólafs­gíga en eng­in gögn benda til þess að hún hafi breyst. Snjóþungt hef­ur verið á svæðinu und­an­farið en ekki sé ástæða til þess að fara á staðinn og lesa af mæl­in­um.

„Raf­magns­fram­leiðsla með vind- og sól­ar­orku er á staðnum og er nægj­an­lega mik­il til að bæði halda mæli­tæk­inu gang­andi og senda okk­ur gögn í bæ­inn, þannig að það er eng­in ástæða til að fara á staðinn, við fáum gögn frá mæl­in­um á hverj­um degi.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert