Sparkvöllurinn við grunnskólann á Ísafirði var vígður í dag í minningu Hvatar, fyrsta kvennaknattspyrnufélagsins, sem stofnað var á Íslandi árið 1914.
Segir í tilkynningu að sparkvöllurinn sé gjöf Icelandair til íþróttafélagsins Vestra í tilefni Evrópukeppni kvenna í knattspyrnu og vígðu fótboltastelpur úr Vestra völlinn. Saga kvennaknattspyrnu á Íslandi hófst með stofnun Hvatar á Ísafirði og er saga félagsins gerð skil á sérstöku upplýsingaskilti við sparkvöllinn.
„Á þessum árum var mikill fótboltaáhugi á Ísafirði og máttu stúlkurnar sem stóðu að baki stofnun Hvatar ekki taka þátt í æfingum fótboltafélags Ísafjarðar og stofnuðu því sitt eigið fótboltafélag,“ en helstu driffjaðrirnar í stofnun Hvatar voru þær Guðrún Skúladóttir, Bergþóra Árnadóttir og Ingibjörg Helgadóttir.
Stúlkurnar í Hvöt, sem voru á aldrinum 13-19 ára, kepptu innbyrðis og við strákalið á Ísafirði, svokölluð púkalið. Þær æfðu á hrossataðsvöllum á Eyrartúni, Tangstúni og Ristúni á árunum 1914-1916.
Sigríður Lára Gunnlaugsdóttir knattspyrnukona tók þátt í að vígja völlinn en amma hennar Anna Ingvarsdóttir var í Hvöt frá stofnun félagsins. Þá var Sigríður sjálf í kvennaliði Ísafjarðar sem var starfrækt frá 1981 í nokkur ár og dóttir hennar, Rannveig, í meistaraflokki kvenna þegar hann var endurvakinn á Ísafirði árið 2012. Konurnar í fjölskyldunni hafa því kynslóð eftir kynslóð heillast af boltanum.
Hún bendir á að þar sem sparkvöllurinn stendur nú var áður tún þar sem stúlkurnar í Hvöt spiluðu fótbolta á sínum tíma.
Sigríður fékk að heyra sögurnar af Hvöt í gegnum pabba sinn en amma hennar lést áður en hún fæddist.
„Þetta þótti náttúrulega mjög merkilegt að það hafi verið stofnað kvennalið þetta snemma hér. Ísafjörður var stór bær á þeim tíma og margir strákar að spila fótbolta og þær langaði bara að vera með.“
Þá bendir hún á að þetta hafi ekki bara verið ungar stelpur að leika sér. Liðið hafi greinilega fengið stuðning enda voru þær með þjálfara, Einar Odd Kristjánsson gullsmið, sem studdi við þær og hélt vel utan um liðið.
Líkt og áður segir spiluðu stelpurnar oft innbyrðis og voru þær þá 11 á móti 11 og bendir Sigríður á að þarna hafi í fyrsta skipti spilað 11 kvenmenn í tveimur liðum á Íslandi.
22 tvær stúlkur hafa því verið í félaginu og því ansi ljóst að fótboltaáhugi meðal stúlkna á Ísafirði hafi ekki verið minni en hjá drengjunum.
„Þær hafa verið framsýnar og áhugasamar,“ segir Sigríður og bætir við: „Við náum ekki í lið í meistaraflokk núna, því miður. Þær stóðu betur að vígi en við gerum.“