Gæsluvarðhald yfir verkamanninum sem réðist að samstarfsmanni sínum, með haka og klaufhamar að vopni, rennur út á morgun.
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar, reiknar með því að farið verði fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir viðkomandi.
Hann segir rannsókn málsins þó ganga nokkuð vel.
Tildrög atviksins voru þau að til átaka kom milli byggingaverkamanna sem voru við vinnu á Seltjarnarnesi.
Starfsmaður verktakafyrirtækis réðist þá á samstarfsmann sinn með klaufhamri og haka. Sá sem varð fyrir árásinni fékk töluverða höfuðáverka, og vitni segja blóð hafa fossast út úr höfði hans.
Samstarfsmenn mannanna náðu að yfirbuga árásarmanninn þar til lögreglu bar að garði og var hann þá handtekinn.