„Ég tók sjálfur skellinn vegna tjónsins. Fannst hreinlega ekki hægt að senda inn skýrslu til tryggingafélags og blanda álfum og huldufólki inn í atvikalýsingu,“ segir Kristinn Jónasson, bæjarstjóri í Snæfellsbæ.
Grasin vaxin hraunnibba við hús bæjarskrifstofunnar þar vestra, sem stendur við götuna Klettsbúð á Hellissandi, er úti í kanti á steyptu plani fyrir framan bílskúr á húsinu. Og steinarnir tala, eins og oft er sagt.
Byggingin við Klettsbúð var reist fyrir 40 árum og þar var lengi útibú Landsbankans. Ætla má að eðlilegast hefði verið við byggingaframkvæmdir á sínum tíma að moka drýlinu burt, enda sviplíkt mörgum öðrum á þessum slóðum. Kristinn segir slíkt þó aldrei hafa komið til greina, enda sé trú Sandara – eins og íbúar á þessum slóðum eru gjarnan kallaðir – að sitthvað búi þarna í grjótinu. Huldar vættir eigi sér bústað í steini þessum á bílastæðinu sem því hafi fengið að halda sér. Röskun geti raskað ró þeirra sem eiga sér griðastað í grjótinu.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag.