Bátadögum frestað vegna veðurs

Siglt er á gömlum, opnum súðbyrtum bátum en þeir voru …
Siglt er á gömlum, opnum súðbyrtum bátum en þeir voru mjög algengir við Breiðafjörð. Ljósmynd/Haukur Sigvaldason

Ákveðið hef­ur verið að fresta Báta­dög­um 2022 til 16. júlí vegna slæms veðurút­lits. Til stóð að fara í sigl­ingu á opn­um súðbyrðing­um frá Reyk­hól­um og út í Hvallát­ur laug­ar­dag­inn 9. júlí. 

Það er Fé­lag áhuga­manna um Báta­safn Breiðafjarðar á Reyk­hól­um sem gengst fyr­ir báta­hátíðinni, nú í fimmtánda sinn. Nán­ari upp­lýs­ing­ar er að finna á vefn­um bata­smidi.is.

„Upp­hafið var að við sigld­um í hóp á göml­um tré­bát­um, opn­um súðbyrðing­um. Oft hafa þetta verið 6-8 bát­ar en voru 20 þegar þeir voru flest­ir. Þá komu menn vest­an af fjörðum og sunn­an úr Reykja­vík til að vera með. Þess­ir bát­ar eru að týna töl­unni, en nokkr­um er haldið gang­andi,“ seg­ir Hafliði Aðal­steins­son, skipa­smíðameist­ari og húsa­smiður.

Súðbyrðing­arn­ir eru 6-9 metra lang­ir og flest­ir með breiðfirsku lagi. All­ir bát­arn­ir eru vél­knún­ir en nokkr­ir einnig með segla­búnað og draga þau upp í hag­stæðum byr, þó ekki í hóp­sigl­ing­unni. Í seinni tíð hafa ný­tísku­legri bát­ar einnig sleg­ist í hóp­inn. Oft fer björg­un­ar­sveit­ar­bát­ur með eða hraðbát­ur sem get­ur brugðist skjótt við ef eitt­hvað ber út af.

„Sex metra löngu bát­arn­ir voru mikið notaðir við nýt­ingu hlunn­inda, eins og æðard­ún, sel­veiði og þess hátt­ar. Stærri bát­arn­ir voru notaðir til flutn­inga bæði á Breiðafjarðareyj­um og nesj­un­um áður en veg­ir komu heim að öll­um bæj­um við inn­an­verðan Breiðafjörð,“ seg­ir Hafliði. „Minnstu bát­arn­ir, fjög­urra manna för­in, voru til á öll­um bæj­um sem áttu land að sjó. Meðan versl­un­in var í Flat­ey fóru menn í versl­un­ar­ferðir á þess­um litlu horn­um.“

Flest­ir bát­anna voru smíðaðir þegar vél­væðing­in var að taka við á ár­un­um 1930-1950. Örfá­ir eru yngri.

Siglt verður frá Reyk­hól­um til Hvallátra og aft­ur til baka. Ekki er farið í sigl­ing­una nema veðrið sé mjög gott. Ann­ars verður þetta ekki skemmti­ferð. Siglt er á milli skerja stór­an hluta leiðar­inn­ar og hún er ekki nema fyr­ir þaul­kunn­uga. Hafliði er upp­al­inn í Hvallátr­um og þekk­ir leiðina vel. Bróðir hans er svo í öðrum báti og þeir lóðsa bát­ana á milli skerj­anna. Meðal ann­ars verður siglt um sund sem eru á þurru um fjör­una og því þarf að sæta sjáv­ar­föll­um.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert