Mikill vöxtur hefur verið í ám í Skagafirði. Skúli Halldórsson, verkstjóri Vegagerðarinnar á Skagafirði, segir í samtali við mbl.is að hann og fleiri hafi unnið hörðum höndum í alla nótt til að koma í veg fyrir að gífurlegt tjón yrði.
Rignt hefur mikið á svæðinu undanfarið og af þeim sökum hefur orðið mikill vatnavöxtur í ánum. Þetta hefur valdið því að á ýmsum stöðum hefur flætt töluvert en mesta flóðið var í Djúpadalsá.
„Það er búið að vera svo kalt og því mikill snjór til fjalla og þegar það gerist svona úrhellisrigning eins og í allan gærdag, og hlýindi með, þá bráðnar til fjalla og vatnið fer fram,“ segir Skúli spurður hvað hafi valdið þessum skyndilega vexti.
Skúli segir að Vegagerðin hafi fyrst fengið tilkynningu um að ár væru að flæða yfir bakka sína um klukkan hálf sjö í gærkvöldi og að þeir hafi hafið vinnu þá og unnið í gegnum alla nóttina.
Vinnan stoppaði ekki þegar á morguninn var komið heldur áttu þeir enn meira í vændum.
„Klukkan sjö í morgun héldum við að við værum búnir að ná yfirhöndinni og menn fóru að hvíla sig en þá kom hringing frá nágrannabæ sem taldi að það væri komin hætta aftur.“
Hélt þá Skúli ásamt fleirum áfram að vinna og vann fram eftir degi við það að tryggja varnargarða og koma í veg fyrir mesta tjón. Að sögn Skúla er ástandið fyrst núna að róast og geta menn því loksins hvílt sig aðeins.
Skúli segir að ef ekki hefði verið fyrir inngrip þeirra hefði flóðið tekið með sér mikla efnishauga og varnargarða á svæðinu sem hefði verið mörg milljón króna tjón. Að auki bendir Skúli á að ef allir varnargarðarnir hefðu gefið sig hefði flóðið geta farið niður að nærliggjandi bæjum og að hringveginum og jafnvel rofið hann.
Segir Skúli að þetta hefði getað endað með gífurlegu tjóni. Þrátt fyrir inngrip þeirra var að sögn Skúla feiknatjón á varnargörðunum. „Það var mikið tjón á varnargörðum sem ekki sér fyrir endann á.“
Hann bætir við að það muni kosta tugi milljóna að hreinsa ána og gera við varnargarðanna.