Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur segir Einar Þorsteinsson hafa staðið sig mjög vel sem staðgengill borgarstjóra. Eins og mbl.is greindi frá var Einar staðgengill Dags á meðan Dagur var erlendis að fagna 50 ára afmæli sínu með fjölskyldunni.
„Hann stóð sig mjög vel og allur hópurinn. Það er lykillinn að góðu fríi að geta treyst fólkinu sem stendur vaktina,“ segir Dagur í samtali við mbl.is.
Spurður hvort að um hafi verið að ræða góða æfingu fyrir Einar svarar Dagur því játandi. Einar mun taka við af Degi sem borgarstóri Reykjavíkur í byrjun árs 2024 samkvæmt samkomulagi meirihlutans í borginni.
„Þetta er auðvitað bara samvinna og hópvinna að stýra borg og það er bara mikill hugur í nýjum meirihluta,“ segir Dagur að lokum.