Fækka stofnunum til að einfalda kerfi ríkisins

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra hefur sett saman starfshóp sem …
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra hefur sett saman starfshóp sem mun vinna að því að einfalda stofnanakerfi ríkisins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur sett saman starfshóp sem mun vinna að því að einfalda stofnanakerfi ríkisins. Stefnt er að því að gera það með því að fækka stofnunum enn frekar og sameina aðrar. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins

Þar segir að markmiðið starfshópsins sé að bæta þjónustu, auka skilvirkni og stuðla að sveigjanleika í skipulagi og framþróun. 

Mikið af stofnunum

Er þá tekið fram að fjöldi ríkisstofnana hafi farið lækkandi á undanförnum árum en að enn þá sé fjöldi stofnana í stofnkerfi ríkisins talsverður. 160 stofnanir eru í A-hluta ríkisins, á anna tug ríkisfyrirtækja í B- og C-hluta ásamt 70 sjálfstæðum stjórnsýslunefndum. Þá er bent á að rúmlega helmingur stofnana í A-hluta er með færri en 50 starfsmenn og að um 66 prósent stofnana velti undir milljarði króna á ári.

Þá er bent á að talsverð einföldun hafi átt sér stað á stofnanakerfi ríkisins undanfarin ár en stofnanir voru 250 árið 1998. Sem dæmi um breytingar sem fækkuðu stofnunum á þessum árum má nefna að skattamál voru áður hjá öðrum tug stofnana en eru nú öll á einum stað. 

Nú er stefnt að því að einfalda enn frekar og mun starfshópurinn vinna eftir skýrslu sem að Ríkisendurskoðun birti í febrúar um stofnanakerfi ríkisins. Megintillaga skýrslunnar er að stjórnvöld fylgi eftir og taki afstöðu til framkominna tillagna um einföldun stofnanakerfisins. Þar má helst nefna tillögur verkefnisstjórnar um breytingar á stofnanakerfi ríkisins frá 2015 sem skipuð var fulltrúum allra ráðuneyta. 

Fyrirhugað er að hópurinn skili niðurstöðum í haust. Verkefnið verður unnið undir forystu ráðherranefndar um ríkisfjármál og verður skipaður aðstoðarmönnum fjármála- og efnahagsráðherra, forsætisráðherra og innviðaráðherra, auk sérfræðinga úr viðkomandi ráðuneytum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert