Flestir borgarfulltrúar búa í miðbænum, en næst flestir í Vesturbænum. Þegar horft er til varaborgarfulltrúa eru hins vegar flestir búsettir í Hlíðahverfi og næst flestir í Neðra-Breiðholti.
Í umhverfis- og skipulagsráði borgarinnar eru flestir búsettir í miðbænum, en þar á eftir koma bæði Vesturbærinn og Árbærinn. Þetta er meðal þess sem má lesa úr svari sem lagt var fyrir á fundi borgarráðs í gær vegna fyrirspurnar Sönnu Magdalenu Mörtudóttur, borgarfulltrúa Sósíalistaflokksins.
Óskaði Sanna eftir því að fá svör við því hvernig dreifing borgarfulltrúa og varaborgarfulltrúa, auk fulltrúa í umhverfis- og skipulagsráði væri eftir póstnúmerum í borginni.
Sjá má dreifinguna á meðfylgjandi grafi, auk þess sem samtala fyrir borgarfulltrúa, varaborgarfulltrúa og fulltrúa í umhverfis- og skipulagsráði fylgir einnig með. Vert er að taka fram að enginn fulltrúi var búsettur í póstnúmerum 103 (Bústaða- og Háaleitishverfi nærri Kringlunni) og 111 (Efra-Breiðholt).