Fluttu 80 manns frá Laugaveginum

Ríflega 80 manns voru fluttir frá staðnum.
Ríflega 80 manns voru fluttir frá staðnum. Ljósmynd/Christina Raytsiz

Ríflega 80 manns voru sótt frá Emstrum, þriðja áfanga gönguleiðarinnar um Laugaveginn, í slæmu og blautu veðri í gær. Ferðaskrifstofan South Coast Adventure sótti fólkið á 5 til 6 bílum að sögn eigandans, Ársæls Haukssonar. 

Björgunarsveitir sóttu tvo sem höfðu ofkælst og var annar þeirra alvarlega ofkældur.

„Það er náttúrulega ofboðslegt magn af fólki sem gengur Laugaveginn og allir voru meðvitaðir um hvernig veðirð væri og vel upplýstir en nokkrir voru vanbúnir til þessarar göngu. Bæði voru sumir illa klæddir og sumir bara ekki búnir að borða nóg,“ segir Ársæll.

Hefðu ekki getað gist

„Fólkið var ekki í krítísku ástandi en það hefði verið hræðilegt fyrir það að eyða nóttinni á staðnum,“ segir Ársæll. Um var að ræða hóp sem hafði lagt af stað frá Landmannalaugum og voru flestir með tjaldgistingu, en þeir sem voru með skálapláss héldu áfram og gistu í skálanum í Emstrum.

„Skálaverðir Ferðafélags Íslands eiga heiður skilið fyrir að upplýsa fólk vel um aðstæður,“ segir hann. Veðrið var slæmt í gær á landinu öllu, einkum á hálendinu þar sem vindhviður voru hvassar.

Ferðaskrifstofan sendi 5 til 6 bíla á staðinn.
Ferðaskrifstofan sendi 5 til 6 bíla á staðinn. Ljósmynd/South Coast Adventure
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert