Allt að helmingur íslenskra fanga hefur verið greindur með ADHD, eða á annað hundrað, á síðustu tveimur árum.
Geðheilbrigðistreymi fangelsa á vegum heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins var þá sett upp innan fangelsisveggja og hóf greiningu og meðhöndlun.
„Tilfinning okkar er að annar hver fangi geti verið með ADHD hér á landi,“ segir Sigurður Örn Hektorsson, geð- og fíknilæknir, við Læknablaðið.
Auk þess að greina fangana hefur teymið sett þá í lyfjameðferð, þrátt fyrir að þeir glími við fíknisjúkdóma en þannig var það ekki áður.
„Bæði þunglyndi og kvíði fylgir því gjarnan að vera með ADHD, sem og aðrar raskanir, eins og fíknivandi, og fá fangarnir því viðeigandi ráðgjöf,“ segir Sigurður og bætir við að margir fangar hafi tekið miklum framförum eftir að þessi vinna hófst.
Hann segir marga fanga glíma við geðsjúkdóma og þeir þrífist illa innan fangelsa.
„Við viljum að fangar með geðsjúkdóma hafi betri aðbúnað og aðgang að geðdeildum og geðheilbrigðisstofnunum utan fangelsanna. Það vantar úrræði fyrir þennan hóp. Annað hvort þarf að efla réttar- og öryggisdeildina inni á Landspítala eða stofna til úrræða innan fangelsiskerfisins sem grípur þennan hóp,“ segir hann við Læknablaðið.