Skúli Skúlason lyfsali var við vinnu í Íslands apóteki í dag þegar maður vopnaður byssu gekk inn með miklum látum. Maðurinn otaði um leið byssunni að Skúla og öðrum starfsmönnum á meðan hann krafðist þess að fá lyf.
Eins og greint hefur verið frá var maður handtekinn í dag eftir að hafa ruðst inn í apótek á Laugaveginum með leikfangabyssu.
Skúli segir í samtali við mbl.is að honum líði ágætlega þrátt fyrir þetta atvik. „Manni er pínu brugðið, þetta er ekkert þægilegt,“ bætir hann við.
Segist Skúli vorkenna stráknum sem ruddist inn í apótekið hvað mest, þar sem greinilega hafi verið um að ræða örvæntingarfulla tilraun til ráns.
„Það er óheppilegt að þetta sé virkilega staðan sem einhverjir eru komnir í,“ segir hann og kveðst finna til ákveðinnar samúðar með manninum.
Að sögn Skúla sá starfsfólkið ekki strax að um var að ræða leikfangabyssu þegar maðurinn kom inn, enda hafi hann komið inn með miklum látum. Skúli og annað starfsfólk gættu því fyllsta öryggis.
Þegar maðurinn kom nær og þau sáu byssuna betur gerðu þau sér þó fljótlega grein fyrir því að hún væri aðeins leikfang.
„Við sáum það náttúrulega þegar við fengum smá tíma til að anda, að það var nokkuð augljóst hvað hann væri með í höndunum.“
Skúli bætir við að leikfangabyssan hafi verið brotin og að greinilega hafi sést í sprungur á byssunni.
Þegar maðurinn kom lengra inn í búðina fór hann að gramsa eftir lyfjum. Að sögn Skúla var hann líklegast að leita að rítalíni eða einhvers konar lyfjum við ofvirkni og athyglisbresti. Fóru þá aðrir starfsmenn apóteksins á bak við og hringdu á lögregluna en Skúli stóð á meðan hjá manninum.
Sá Skúli þá tækifæri til að grípa málin í sínar hendur. „Þegar hann snýr baki í mig næ ég að taka hann niður og taka utan um hann. Ég hélt honum bara hjá mér þar til lögreglan kom.“
Skúli bendir á að það sé ekki eitthvað sem er mælt með að gera þegar rán er að eiga sér stað.
„Ef hann hefði verið með eitthvað annað vopn þá hefði ég ekki farið í þetta.“
Hann tekur fram í lokin að hann vonist til þess að þetta atvik muni vekja manninn sem ruddist inn í apótekið til umhugsunar og að hann breyti vonandi til í lífinu.