Hilmar Einarsson náði í morgun myndum af hnúfubak sem hafði rekið á land við Hringsdal í Arnarfirði. Hann segist ekki áður hafa orðið var við hvalreka á þessum slóðum.
„Við vorum búin að sjá einn hnúfubak hérna fyrir utan hjá okkur í Hringsdal fyrir tveimur dögum, þeir eru dálítið fyrir að stökkva, og skemmtilegt að horfa á hann. Ég held að þetta sé örugglega sami hvalurinn,“ segir hann í samtali við mbl.is.
„Það var svolítið erfitt að komast að honum fyrst, fyrir um tveimur dögum var hann aðeins dýpra en hann er kominn að landi núna og þetta er dálítið mikil skepna, þetta eru stórir hvalir.“
Hilmar veit ekki hvað hefur komið fyrir fyrir hvalinn, en bendir á að sjókvíaeldi sé skammt frá.
„Hann er nú ekki langt frá því, hann hefur kannski eitthvað verið að kíkja á það. Ég er búinn að láta Umhverfisstofnun vita, ég var að hugsa hvort það ætti að fjarlægja hann en það er svolítið mál. Þetta er þó ekki alveg beint fyrir framan bæinn heldur aðeins utar í fjörunni,“ segir hann.
„Þetta er alltaf svolítið sérstakt, ég hef nú ekki orðið var við hvalreka í Arnarfirði, en hnúfubakar eru svolítið á ferðinni hérna seinni hluta sumars.“