Örþrifaráð að kalla fólk inn úr sumarleyfum

Hildigunnur Svavarsdóttir.
Hildigunnur Svavarsdóttir. mbl.is/Margrét Þóra

„Þetta er það síðasta sem að við vilj­um gera, að grípa til þess að kalla fólk inn úr sum­ar­leyf­um. Fólk þarf að hvíla sig, sér­stak­lega í þess­um aðstæðum núna – fólk er þreytt og lúið fyr­ir,“ seg­ir Hildigunn­ur Svavars­dótt­ir, for­stjóri Sjúkra­húss­ins á Ak­ur­eyri, í sam­tali við mbl.is.

Fram kom í pistli frá henni sem birt­ur var í dag að þurft hef­ur að grípa til þess örþrifaráðs að kalla starfs­menn til vinnu úr sum­ar­leyf­um vegna mik­ill­ar mann­eklu. 

All­ar legu­deild­ir full­ar

Þar seg­ir einnig að álagið stafi af inn­lögn­um vegna Covid-19 og auk­ins álags vegna fjölda ferðamanna og ým­issa annarra sjúk­dóma sem krefjast ein­angr­un­ar sjúk­linga. 

All­ar legu­deild­ir á Sjúkra­hús­inu á Ak­ur­eyri eru yf­ir­full­ar þrátt fyr­ir að dregið hef­ur verið úr val­kvæðri þjón­ustu. 

Hildigunn­ur seg­ir pláss­leysi einnig hrjá starf­sem­ina. „Við erum með öll rúm full inn á þess­um legu­deild­um okk­ar og svo kem­ur mann­ekla ofan á það. Okk­ur vant­ar fleira fólk til að sinna þeim sem fyr­ir eru.“ Hún tek­ur þó fram að ekki verði ráðist í gangalagn­ing­ar. 

Einn á gjör­gæslu með Covid-19

Í dag eru fjór­ir sem liggja inni á sjúkra­hús­inu með Covid-19, þar af einn á gjör­gæslu í önd­un­ar­vél. Hildigunn­ur seg­ir að inn­lagn­ir vegna kór­ónu­veirunn­ar sveifl­ist nokkuð og hafi farið hæst í ell­efu í nú­ver­andi bylgju, fyr­ir aðeins nokkr­um dög­um. 

„Þetta er mjög þungt ástand hjá okk­ur. Sér­stak­lega þar sem við náðum ekki að ráða inn í all­ar sum­araf­leys­ing­ar og það eru veik­indi – starfs­fólkið okk­ar fær Covid-19 eins og aðrir. Svo er ekki ráðið í all­ar stöður hjá okk­ur. Þetta telst allt til og svo er þol gagn­vart út­köll­um orðið mikið minna. Það er erfitt að vera alltaf að fá sím­hring­ingu um að koma á auka­vakt,“ seg­ir Hildigunn­ur. 

Fram kem­ur í pistli Hildigunn­ar að bú­ast megi við því að áfram muni reyn­ast erfitt að manna á sjúkra­hús­inu, en hún seg­ist vona inni­lega að ekki komi til þess að áfram þurft að kalla fólk inn úr sum­ar­leyf­um. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert