Um fimmleytið í gær var tilkynnt um þjófnað úr verslun í Árbænum. Tilkynningunni fylgdi að sá grunaði hefði ráðist á starfsmann verslunarinnar. Sá grunaði var látinn laus að lokinni skýrslutöku.
Önnur tilkynning um þjófnað úr verslun barst um hálfníuleytið í gærkvöldi. Sá grunaði var látinn laus að lokinni skýrslutöku en atvikið átti sér stað í Breiðholti.
Um hálftólfleytið var tilkynnt um einstaklinga sem voru til vandræða á tjaldsvæðinu í Laugardal, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Starfsmenn á skemmtistað í miðbænum óskuðu á tólfta tímanum eftir aðstoð lögreglu við að vísa út viðskiptavini sem neitaði að yfirgefa staðinn.
Um hálfeittleytið í nótt var tilkynnt um eld í bifreið í hverfi 220 í Hafnarfirði. Slökkvilið sá um að slökkva í bifreiðinni.
Afskipti voru jafnframt höfð af einstaklingi í hverfi 108 í Reykjavík klukkan sjö í gærkvöldi sem er grunaður um vörslu fíkniefna.