Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning frá vegfaranda í vikunni um áttavilltan lunda á vappi í Suðurhlíðunum.
Í færslu á facebook-síðu lögreglunnar segir að ekki hafi fylgt tilkynningunni hvort að hann hafi verið særður.
„Við sendum að sjálfsögðu tvo lögreglumenn snarlega á staðinn til að kanna málið frekar. Eftir stutta leit fannst lundinn. Hann var ánægður að sjá okkur og var hinn gæfasti í höndum lögreglu,“ segir í færslunni.
Þar segir einnig að ákveðið hafi verið að fara með lundann til dýrahirðis í Húsdýragarðinn þar sem vel hafi verið tekið á móti honum og viðeigandi ráðstafanir gerðar.
„Lundinn var mjög rólegur og hæst ánægður með bílferðina í lögreglubílnum,“ segir enn frekar í færslunni.