Vill einkaþotur og þyrlur af Reykjavíkurflugvelli

Einkaþotur á Reykjavíkurflugvelli.
Einkaþotur á Reykjavíkurflugvelli. mbl.is/Árni Sæberg

Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi flokksins í borgarráði Reykjavíkur, vill að umferð einkaþota og þyrluflugi verði beint annað en um Reykjavíkurflugvöll. Lagði hún tillögu þar að lútandi fram í borgarráði í gær.

Í tillögunni er lagt til að borgarstjóra sé falið að ganga til samninga við samgönguyfirvöld um að „beina umferð á einkaþotum og þyrluflugi annað en um Reykjavíkurflugvöll.“ Segir jafnframt í tillögunni að slíkar breytingar myndu hafa margs konar jákvæð áhrif á borgina, íbúa hennar og umhverfið.  

Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna.
Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna. mbl.is/Árni Sæberg

„Hljóð- og loftmengun og almennt ónæði yrði minna, öryggi íbúa í miðborginni og í grennd við flugvöllinn myndi aukast og svo samræmist aðgerðin markmiðum borgarinnar í umhverfis- og loftslagsmálum,“ segir í tillögunni.

Hávaði og óþefur fylgi þessu flugi

Í greinargerð með tillögunni er tekið fram að tillögunni sé ekki ætlað að taka á nokkurn hátt afstöðu til deilna sem hafi verið um hvort flugvöllurinn skuli víkja sem miðstöð innanlandsflugs sem hann er í dag. Líf tekur hins vegar fram að ýmiss önnur umferð sé um flugvöllinn sem geti verið á þeim tímum sólarhrings þar sem almennt áætlunarflug er ekki í gangi. „Mikill fjöldi einkaþota og þyrla fer um völlinn og er sú flugumferð sérlega truflandi og fylgir henni bæði hávaði og óþefur,“ segir í greinargerðinni.

Áfram varaflugvöllur og neyðarflug

Segir Líf að tillagan gagni út á að lendingum einkaþota og þyrla verði fundinn annar staður og er sérstaklega vísað til Keflavíkurflugvallar, eða þyrlupalla sem væru fjær íbúabyggð. „Áfram yrði vitaskuld heimilt að nota völlinn sem varaflugvöll eða til neyðarflugs slíkra farartækja. Meginreglan væri hins vegar að einkaþotur og þyrlur stæðu ekki á Reykjavíkurflugvelli.“

Reykjavíkurflugvöllur.
Reykjavíkurflugvöllur. mbl.is/Árni Sæberg

Segir hún meginrökin fyrir því að vísa þessu flugi frá Reykjavíkurflugvelli vera umhverfisleg, en varði einnig velferð íbúa. Þá segir Líf að varla sé til meira mengandi „samgöngumáti en einkaþotu- og þyrluflug auðkýfinga og auðmanna.“

Tengir hún þessa tillögu við áætlun um kolefnisleysi borgarinnar. „. Það þarf að senda skýr skilaboð um að Reykjavíkurborg ætli sér að verða kolefnishlutlaus fyrir árið 2040 og fylgja því síðan fast á eftir með aðgerðum sem ná settum markmiðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert