900 milljónir í styrki til orkuskipta

Flest verkefnin sem fengu styrki tengdust uppsetningu á hleðslustöðvum við …
Flest verkefnin sem fengu styrki tengdust uppsetningu á hleðslustöðvum við gististaði og fjölsótta samkomustaði. mbl.is/Ófeigur

Samtals verður 900 milljónum veitt í styrki til orkuskipta á þessu ári, en þetta er hæsta úthlutun til verkefna í orkuskiptum hingað til. Fjórföld eftirspurn var eftir styrkjunum miðað við þá upphæð sem var úthlutað, en samtals fengu 137 verkefni styrk að þessu sinni eftir að 200 umsóknir höfðu borist.

Meðal þeirra sem fá styrk í ár eru Clara arctic energy ehf. og Vetni ehf. vegna verkefna sem stuðla að vetnisvæðingu flutningstækja hjá Eimskipum og Samskipum. Þá er Útgerðarfélag Reykjavíkur með verkefni sem miðar að því að breyta vinnsluskipinu Guðmundi í Nesi RE13 þannig að það geti brennt metanóli að talsverðum hluta.

Eitt þeirra verkefna sem fékk styrk gengur út á að …
Eitt þeirra verkefna sem fékk styrk gengur út á að breyta vinnsluskipinu Guðmundi í Nesi RE13 þannig að það geti brennt metanóli að talsverðum hluta. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Þá eru verkefni varðandi varmadælur og nýtingu jarðvarma einnig styrkhæf nú. Margvísleg verkefni tengd framleiðslugreinum fá styrki. Flestir styrkirnir eru til uppsetningar á hleðslustöðvum við gististaði og fjölsótta samkomustaði.

„Það er afar hvetjandi að sjá áhugann á orkuskiptum og þann fjölda raunhæfra verkefna sem koma til greina. Sem betur fer er áhugi fjárfesta og frumkvöðla mikill, en þeir leggja til meirihluta fjármagnsins til verkefna á móti sjóðnum. Við þurfum svo sannarlega að virkja áfram þennan slagkraft sem þar er að finna,“ er haft eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra í tilkynningu vegna styrkjanna.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra mbl.is/Hákon Pálsson

Styrkupphæðin getur að hámarki numið einum þriðja af heildarkostnaði verkefna og má því ætla að tæplega þrír milljarðar fari að lágmarki í verkefnin sem styrkt voru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert